Hvernig verður sjálfsmynd þjóðar til og hvernig setur þjóð sér siðferðisleg gildi? Íslendingar voru minntir á það síðasta vetur að við erum ákaflega máttlítil þegar við stöndum frammi fyrir frumkröftum náttúrunnar. Fyrir ekki svo löngu síðan leit út fyrir að þjóðin teldi sér trú um að hún væri herra heimsins. Gosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli minntu okkur á að við erum bæði smá og viðkvæm þegar kemur að náttúruöflunum. Við vorum minnt á að við eigum að ganga um þessa jörð af virðingu og auðmýkt. En um leið eigum við að viðhalda og rækta samband okkar við náttúruna, óbyggðir og öræfi, sem okkur hefur verið afhent til varðveislu og nautna af svo miklum rausnarskap.
Gjafir og ógn náttúrunnar hafa mótað þessa þjóð í yfir 1000 ár. Bæði til lands og sjávar hefur náttúran verið gjöful, en um leið hættuleg, fjandsamleg. Þjóðin lærði á land og haf – og hún lifði af.
Íslenska þjóðin á sér sameiningartákn í óbyggðum landsins. Við erum örþjóð með ómetanleg verðmæti í bakgarðinum.
Stórfengleg náttúra hefur gefið okkur menningarlegan arf; auðlegð og kraft sem gerir þjóðina að því sem hún er. Hálendið og óblíð náttúruöfl þessa lands hafa gefið okkur viðmið. Sögur af hrakförum og hetjudáðum, áföllum og örlögum, sem eru samofin þjóðarsálinni. Í náttúru landsins hafa skáld og listamenn þjóðarinnar sótt innblástur og kraft og fært okkur sjálfsmynd okkar. Við sækjum styrk og orku í þessa auðlind. Hennar eigum við að njóta en um leið verðum við að verja þetta fjöregg okkar með kjafti og klóm. Þær varnir verða að taka mið af því að það er þjóðin sem á þetta land og hún á rétt á að umgangast það og njóta. Af virðingu og af skynsemi auðvitað. Því verður að tryggja eðlilegt aðgengi þjóðarinnar að náttúruperlum landsins.
Nú fer sá tími í hönd að útivistarunnendur og Útivistarfélagar huga að nýju ferðaári. Vetrarferðir í snjó og frosti, vorferðir þegar náttúran brýtur af sér hlekki vetrarins, ferðir á sólbjörtum nóttum og ferðir þegar sumarið lýtur í lægra haldi fyrir komandi hausti. Hvaða ferðir það eru sem toga okkur út, þá væntum við þess að félagar okkar finni spennandi ferðir í ferðaáætlun félagsins fyrir árið 2011. Hvert sem leiðin liggur á nýju ári þá óskar Útivist ykkur góðrar ferðar.