Beint í leiðarkerfi vefsins.
Ferðafélagið Útivist stendur fyrir fjölbreyttum ferðum árið um kring. Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.
Útivist býður upp á dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og kvöldfgöngur með Útivistargírnum. Einnig býður jeppadeildin upp á margar mismunandi ferðir jafnt sumar sem vetur. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallaferðir að sumri og vetri fyrir vel þjálfað fólk.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Við gleymum ekki maganum. Kaffi og vöfflur á boðstólum!
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 2.000 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Hefur þig alltaf langað að prófa bakpokaferðir, en veist ekki hvar á að byrja? Eða er einfaldlega bara of langt síðan síðast og þú vilt rifja þetta upp.
Námskeiðið „Með allt á bakinu – byrjendanámskeið í bakpokaferðum“ er þá fyrir þig!
Hvort sem þú ert að byrja í því að ganga með allan búnað á bakinu eða hefur ekki gert það í langan tíma og vilt rifja það upp, þá færðu á þessu námskeiði þá þekkingu og reynslu sem þarf til að takast á við lengri ferðir á eigin vegum.
Námskeiðið fer yfir grunnatriði bakpokaferðalaga með skemmtilegum fyrirlestrum og dagsferðum, þar sem þú lærir allt frá því að velja réttan bakpoka og pakka snjallt, til að tjalda, elda úti og velja leiðir í náttúrunni. Þú færð tækifæri til að prófa búnaðinn þinn í öruggu og skipulögðu umhverfi og undirbúa þig fyrir lengri ferðir, allt undir leiðsögn reynslubolta
Fararstjórar eru Hrönn Baldursdóttir og Íris Hrund Halldórsdóttir
Eldri borgarar á fjöllum
Á undanförum áratug hefur aldurssamsetningu landsmanna breyst talsvert; börnum hlutfallslega fækkað og eldra fólki fjölgað. Í upplýsingum frá Hagstofunni kemur fram að hlutfall eldra fólks hefur aldrei verið hærra á Íslandi en nú er.
Sumarið 2022 ákvað Ferðafélagið Útivist að bregðast við þessari þróun og bjóða uppá bækistöðva ferðir fyrir einstaklinga sem náð hafa sextugsaldri. Það er skemmst frá því að segja að ferðirnar hafa slegið í gegn þessi þrjú sumur sem þær hafa verið í boði; valinn maður í hverju rúmi.
Bækistöðvaferð í Bása hefur verið fastur liður öll sumrin, auk ferða í Strútsskála og Dalakofann. Gist er í tvær nætur og boðið uppá gönguferðir við allra hæfi auk þess sem sumir velja að njóta kyrrðarinnar í og við skálann. Þrír fararstjórar; Guðbjartur, Guðrún og Jóhanna, sem öll eru 60+, fylgja hópnum þannig að hægt sé að mæta óskum þátttakenda um erfiðleikastig gönguferðanna. Konur voru duglegri að mæta framan af en karlarnir hafa sótt í sig veðrið og komu sterkari inn síðast liðið sumar.Skálarnir sem gist hefur verið í, hvort heldur er í Básum, Strút eða Dalakofanum hafa ekki verið aðgengilegir öðrum gestum á meðan 60+ hópur er þar á ferð. Sameiginlegar kvöldmáltíðir, hafragrautur í morgunmat, kaffi, te og heitt súkkulaði, vöfflur og rjómi eru meðal þess sem boðið hefur verið uppá í bækistöðvaferðunum.
Útivistarfélagar til fjölda ára og aðrir náttúruunnendur hafa verið duglegir að mæta og upplifa kunnugleg landssvæði og endurnýja vináttu eða jafnvel að stofna til nýrrar. Spil eru dregin fram og gjarnan spiluð kínaskák, einhverjir prjóna, aðrir lesa eða dunda í krossgátu, en aðallega er spjallað og hlegið. All margir hafa farið úr fyrir eigin þægindaramma í 60+ ferðunum og upplifað að geta mun meira en þeir héldu þegar lagt var af stað. Slíkir sigrar toga fólk gjarnan á ný til fjalla til að endurupplifa náttúruna og auka þol og þrek. Hvers kyns útivera er til þess fallið að styrkja líkamlega heilsu fólks og góður félagsskapur er gulls í gildi fyrir andlega næringu. Ferðafélagið Útivist er því að leggja sitt að mörkum til að bæta lífskjör þeirra einstaklinga sem velja að taka þátt í 60+ ferðum félagsins.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Hefur þig alltaf langað til að geta gengið á fjöll og/eða taka þátt í lengri göngum en ekki látið verða af því? Þá er Útivistargírinn fyrir þig! Fjölmargir hafa tekið sín fyrstu skref í útivist og fjallgöngum með Útivistargírnum þar sem saman koma nýliðar og reynsluboltar í útivistinni.
Dagskrá Útivistargírsins haustið 2023 hefst 29. ágúst og stendur til 3. október. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti sem og nýliðum í útivist og hvetjum við einnig þá sem vanari eru göngum að taka þátt nema annað sé tekið fram. Í kvöldgöngum er farið yfir grunnatriði í útivist og gönguferðum og fjölbreytt starfsemi Útivistar kynnt þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og er tekið mið af veðri og færð hverju sinni.
Göngurnar taka 2–4 klukkustundir og koma þátttakendur sér á staðinn á einkabílum.
Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en æskilegt er að skrá þátttöku í hverja göngu fyrir sig í viðburði á Facebook. Kynntu þér Útivistargírinn á utivist.is, þar má finna dagskrá ásamt upplýsingum um skráningu.
Dagskrá vor 2023
Hópastarf Útivistar
Hópastarfið skipar stóran þátt í starfsemi Útivistar. Boðið er upp á fjölbreytta hópa þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Fjallabrall hefur fest sig í sessi sem gríðarlega vinsæll gönguhópur innan Útivistar síðan hann fór í gang á haustdögum 2022 og starfar af krafti á vorönn 2025
Hópurinn er ætlaður öllum þeim sem hafa einhverja reynslu af útivist og fjallgöngum. Erfiðleikastig ferða er 1-2 skór. Miðað er við að dagsferðir séu ekki meira en um 15 km og uppsöfnuð hækkun í ferðum ekki meiri en um 600 metrar.*
Fjallfarar munu á vorönn 2025 æfa sig fyrir göngu á Snæfellsjökul í lok maí eða byrjun júní. Fjöldi ferða eru 10 sem skiptist í 5 kvöldferðir og 5 dagsferðir. Markmið með hópnum er að bjóða upp á fræðandi og skemmtilegar göngur í góðum félagsskap. Göngur Fjallfara eru 2 - 3 skór og eru þær frá miðlungserfiðum upp í erfiðar göngur, og munu taka mið af getustigi hópsins. Byrjað verður á auðveldum göngum og síðan verður erfiðleikastigið aukið jafnt og þétt.
Með allt á bakinu: Byrjendanámskeið í bakpokaferðum er fyrir þá sem hefur alltaf langað að prófa bakpokaferðir, en vita ekki hvar á að byrja? Eða kannski er einfaldlega bara of langt síðan síðast og þú vilt rifja þetta upp. Námskeiðið verður alla vorönn 2025
Fjallabrall er hópur fyrir öll þau sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum og vilja nota meiri tíma í að njóta íslenskrar náttúru. Gráðun ferðanna er 1-2 skór en í flestum ferðum er einhver gönguhækkun þó að hámarki 600 metrar. Að jafnaði eru farnar tvær ferðir í mánuði, ein dagsferð og ein kvöldferð á miðvikudagskvöldi. Miðað er við að fólk fari á eigin bílum í göngurnar nema annað sé tekið fram. Í kvöldgöngunum hittist hópurinn kl. 18 en í dagsgöngunum hittist hópurinn kl. 9 (einstaka sinnum kl. 8) og svo keyrir hópurinn í samfloti að upphafstað göngu. Í göngunum er farið yfir grunnatriði í útivist en auk þess fá þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallabralls eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Athugið að dagskrá getur tekið breytingum með hliðsjón af veðurspá og aðstæðum hverju sinni
Fararstjórar eru Hanna Guðmundsdóttir, Fríða Brá Pálsdóttir og Tryggvi Guðmundsson.
Í víðum fjallasal breiðir Hólmsárlón úr sér en yfir því gnæfa Svartahnjúksfjöll og Torfajökull. Í suðri má sjá tindinn á fjallinu Strút, en af honum er nafn leiðarinnar dregið. Gangan hefst í Hólaskjóli en þaðan er um tveggja klukkustunda gangur í skálann við Álftavötn þar sem gist er fyrstu nóttina. Frá Álftavötnum er gengið með Svartahnjúksfjöllum í Hólmsárbotna og þar gefst jafnan tækifæri til að skola af sér ferðarykið í hinni rómuðu Strútslaug. Úr lauginni er gengið í Strútsskála þar sem gist er tvær nætur. Þann dag sem dvalið er í skálanum er gengið um einstakt umhverfi skálans. Á lokadegi liggur gönguleiðin um Mælifellssand í Hvanngil þar sem rúta tekur upp hópinn.
Brottför er frá Mjódd. Innifalið í verði er fararstjórn, rútuferðir, flutningur á farangri milli skála og allar skálagisting.
Nánari lýsing
Þessi leið er ein helsta skrautfjöður Útivistar. Ferðin hefst með göngu á Sveinstind. Útsýnið yfir hinn margrómaða Langasjó, sem kúrir upp við Vatnajökul, er hreint ólýsanlegt. Í góðu skyggni má líta yfir bróðurpart hálendis Íslands. Leiðin liggur svo um fáfarnar slóðir, söndugar og mosavaxnar, meðfram Skaftá og um leynistigu með Uxatindum og fram grösuga Skælinga. Ganga á Gjátind og um sjálfa Eldgjá er góður lokakafli á þessari margbreytilegu göngu sem lýkur í Hólaskjóli. Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum.
Fararstjóri er Páll Arnarson
Ævintýrið við Strút er bækistöðvarferð fyrir krakka, mömmur, ömmur, pabba, afa, frænkur og frændur.
Hálendið í kringum Strútsskála verður kannað, farið verður í Strútslaug, ætt upp og niður fjöll og firnindi, stiklað yfir ár og leitað að hellisskútum. Farið í ratleik, föndrað, haldnar kvöldvökur og kveiktur varðeldur. Það verður glens og gaman. Öll gil og krókar í nágrenni skálans verða skoðuð hátt og lágt, stunduð listsköpun úti í náttúrunni, teiknaðar myndir, búnar til sögur, samin lög og sungið, lesnar sögur og samin ljóð. Síðasta kvöldið verðum sameiginlegur kvöldmatur.
Fýlupúkar eru vinsamlegast beðnir um að fara ekki í þessa ferð en allir hinir hjartanlega velkomnir ;)
Siglt frá Bolungarvík í Hornvík þar sem settar verða upp tjaldbúðir og gengið út frá þeim.Farið verður um Hornbjarg og Hornbjargsviti í Látravík heimsóttur. Gengið verður um einstigi í Hvannadal. Þá verður farið um Rekavík bak Höfn, Atlaskarð og í Hælavík á æskuslóðir Jakobínu Sigurðardóttur og Þórleifs Bjarnasonar og e.t.v. lesið úr minningabókum þeirra. Bátur sækir farangur en hópurinn gengur um Hafnarskarð í Veiðileysufjörð og hittir á bátinn þar. Hámarksfjöldi 20 manns.Þátttakendur koma sér sjálfir á upphafstað í bátinn.
Fararstjóri er Steinar SólveigarsonInnifalið er sigling, fararstjórn og flutningur á farangri. Gist er í eigin tjöldum.
Þetta er skemmtileg ganga á fáförnum en virkilega áhugaverðum slóðum að Fjallabaki.
Brottför frá Mjódd, kirkjumegin á bílaplaninu fyrir framan Sambíóin og ekið sem leið liggur í Landmannahelli þar sem gist er fyrstu nóttina. Áður en gengið er til náða verða tindar Löðmundar sigraðir.
Eftir góðan nætursvefn hefst gangan með stefnuna á Dalakofa. Margt áhugavert verður á leið göngumanna þennan dag og ber þar hæst hið svokallaða „Auga“ þar sem Rauðufossakvísl sprettur upp úr jörðinni.
Frá Dalakofa liggur leiðin í Hungurfit. Vert er að byrja á að skoða nafnlausa fossinn í Markarfljóti norðan Laufafells. Þó svo foss þessi sé jafnan þekktur sem nafnlausi fossinn hefur hann gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem Rúdolf og Hróðólfur, en fjallmenn á Rangárvallaafrétti kalla hann jafnan Laufa. Gengið er meðfram Skyggnishliðarvatni og niður í Hungurfit þar sem gist verður í vistlegum skála.
Úr Hungurfitjum liggur leiðin í Sultarfit áður en áin Hvítmaga er vaðin og því gott að hafa vaðskóna klára þennan dag. Gengið í Þvergil og komið við í sérstæðum hellisskúta sem var gististaður gangnamanna á fyrri tíð. Leiðinni lýkur svo við Markarfljót hjá Mosum þar sem rúta sækir hópinn.
ATH! Kyningarfundur verður á skrifstofu Útivistar 29. jan kl. 17:30
Síðasta sumar hóf hópur frá Útivist fjögurra ára göngu sína frá Horni í Horn. Sá hópur mun halda áfram göngu sinni þaðan sem frá var horfið og mun ganga legg II næst. Vegna mikils áhuga á leiðangrinum Horn í Horn á síðasta ári var ákveðið að annar leiðangur hæfi göngu sína á þessu ári frá Eystra - Horni. Ef næg þátttaka fæst mun nýr hópur ganga legg eitt í sumar.
Leiðin liggur þvert yfir landið frá suðaustri til norðvesturs. Einn leggur verður genginn á hverju sumri og mun hver leggur taka átta til tíu göngudaga. Ferðin hefst við Eystra-Horn sumarið 2025 og endar í Hornvík 2028. Gist verður í skálum þar sem þeir standa til boða en annars staðar er gert ráð fyrir gistingu í tjöldum. Ferðin verður trússuð eftir því sem við verður komið.
Fyrsti leggur, sumar 2025:
Ekið er frá Reykjavík að Lóni með viðkomu á Höfn í Hornafirði þann 16.júlí og tjöldum slegið upp. Að morgni 17. júlí er hópnum ekið að Eystra-Horni þar sem gangan hefst. Ferðin er trússuð fyrir utan tvo daga þegar gengið er um Lónsöræfi en þá þarf að bera svefnpoka og mat til tveggja daga. Gist er í skálum þar sem þeir eru en annars er tjaldað. Mælt er með 4. árstíða tjöldum. Verð er væntanlegt.
Nánari ferðalýsing
Nú er komið að öðrum legg í Horn í Horn leiðangrinum sem hófst síðasta sumar. Að þessu sinni verður gengið í 7 gönguáföngum frá Snæfelli og um hraun og sanda allt austur að Fjórðungsöldu við Sprengisandsleið.
Við tökum rútu frá Reykjavík 18. júlí og tjöldum í Snæfelli. Frá Snæfelli er haldið að stíflu við Kárahnjúka, svo er haldið um Þríhyrningsfjallgarð og Grænavatn í norðaustur að brúnni yfir Kreppu. Gengið austan Jökulsár að brúnni við Upptyppinga og svo sunnan Vaðöldu framhjá Holuhrauni. Farið yfir hraunið milli Trölladyngju og Þríhyrnings og svo stefnt í suðvestur að Hitulaug. Síðasta göngudaginn, 25. júlí er haldið beint í vestur og endað við sunnanvert Fjórðungsvatn. Þaðan tökum við rútuna aftur til Reykjavíkur. Ferðin er trússuð og stefnt að því að hitta bílinn og búnaðinn öll kvöld. Gist er í eigin tjöldum og er mælt með 4. árstíða tjöldum.
Gönguleiðin á milli Landmannalauga og Þórsmerkur (Bása) kallast Laugavegur. Útivist býður á hverju sumri upp á nokkrar ferðir og er oftast um að ræða 5 daga trússferðir og er gist ýmist í skálum eða tjöldum á leiðinni. Í ferðinni gefst ferðafólki kostur á að kynnast ótrúlega fjölbreyttu og fögru landslagi. Má þar nefna heitar laugar, hveri og jökla. Litadýrðin og fegurð svæðisins er slík að ekki verður lýst með orðum.
Nánari lýsing.
Skemmtileg blanda af bækistöðvarferð og göngu yfir Tindfjallajökul.
Í þessari ferð er farið í Tindfjöll. Dvalið er tvær nætur í skála Útivistar, Tindfjallaseli og stundaðar fjallgöngur. Svo er gengið yfir Tindfjallajökul og Ásgrindur og niður í Hungurfit þar sem gist er síðustu nóttina. Þessi ferð er nokkuð krefjandi og þurfa göngumenn að vera í góðu formi.Farið er á eigin bílum í Fljótshlíð. Ferðin er trússuð.
Nánari upplýsingar
Þessi ferð er uppseld.
Eldgjá endilöng – afmælisferð
Í tilefni 50 ára afmælis Útivistar verður í ágúst farin afar spennandi afmælisferð eftir endilangri Eldgjá frá norðri til suðurs. Eldgjá er 40 km löng og myndaðist í risagosi um árið 939.Hún er eitt af mestu nátturuundrum landsins. Margir kannast við hana þar sem hún sker Fjallabaksleið nyrðri en fáir hafa skoðað hana endilanga. Hér gefst einstakt tækifæri til að skoða í návígi þetta stórbrotna landslag í fylgd fararstjóra sem þekkja svæðið eins og handarbakið á sér og gista í huggulegum skálum Útivistar á leiðinni. Ferðin er trússferð. Vaðskó þarf alla göngudaga. Fararstjóri: Hákon Gunnarsson.
Landmannalaugar – Strútur - afmælisferð
Tjaldferð með allt á bakinu frá Landmannalaugum í Strút um Grænahrygg, Hattver, Muggudal og Hólmsárbotna í Strútslaug og þaðan í Strút. Þar er sameinast gönguferð um Eldgjá og grillað að hætti Útivistar.
Fararstjóri: Páll Arnarson
Víknaslóðir - kvennaferð
Upplifðu kyrrláta fegurð Víknaslóða – Hægferð fyrir þær sem vilja njóta í rólegheitum
Víknaslóðir eru margrómað gönguland þar sem óviðjafnanleg náttúrufegurð og friðsæld sameinast í einstaka upplifun. Þetta er ferð fyrir þá sem vilja draga andann djúpt, ganga með hóflegu tempói og njóta augnabliksins. Gangan hefst og endar í Bakkagerði í Borgarfirði eystri, þar sem þú getur dregið þig í hlé frá ys og þys hversdagsins og leyft þér að sökkva inn í einstaka náttúru Austfjarða. Við köllum þetta hægferð þar sem dagleiðirnar eru vel viðráðanlegar – lengstu dagleiðirnar um 15 km – og mesta hækkunin er 920 metrar. Ferðin er sérstaklega vel til þess fallin fyrir konur sem vilja sameina útivist og afslöppun í fallegu umhverfi. Þetta er ekki kapphlaup heldur ferð þar sem áhersla er lögð á að skoða, upplifa og njóta. Vertu með í ferð sem fyllir hugann ró og hjartað gleði á þessum einstaka hluta Íslands. Kynntu þér kyrrláta en stórbrotnu Víknaslóðir – þú munt ekki verða svikin.
Fararstjóri: Íris Hrund Halldórsdóttir
Hraðferð um Laugaveginn er tilvalin fyrir þá sem eru í þokkalegu gönguformi og vilja fara þessa fjölförnu leið á þeim tíma þegar fáir eru á ferli.
Skráðu þig og fáðu vikuleg fréttabréf um það sem er á döfinni hjá félaginu.
Skráning á póstlista
Ferðaáætlun Útivistar 2025 er komin út. Kynningarblað fyrir áætlunina verður sent félagsmönnum í pósti og í dreifingu í ýmsa vel valda staði. Ferðir í áætluninni er hægt að skoða með lýsingum hér á vefnum. Hér er hægt að skoða blaðið okkar á PDF formi og hér er hægt að fletta blaðinu rafrænt.