Dalastígur

Dalastígur er ný gönguleið á fáförnum en virkilega áhugaverðum slóðum að Fjallabaki. Gangan hefst í þetta sinn við Mosa skammt frá Markarfljóti.

Brottför frá Mjódd, kirkjumegin á bílaplaninu fyrir framan Sambíóin.

Þaðan verður gengið í Þverárgil og komið við í sérstæðum gististað gangnamanna í hellisskúta.
Áfram er haldið í skálann í Hungurfitjum þar sem gist verður fyrstu nóttina. Vegalengd 15-16 km.

Frá Hungurfitjum er gengið upp Skyggnishlíðar að Skyggnisvatni, síðan að Laufavatni í Laufahrauni og áfram í Dalakofann í gistingu. Vegalengd 24 km.

Leiðin frá Dalakofanum liggur yfir norðanverðan Svartakamb að Rauðufossafjöllum. Þar finna göngumenn sérkennilega uppsprettu Rauðufossakvíslar og verður ánni fylgt niður fyrir Rauðufossa. Þaðan verður gengið í Landmannahelli og gist þar. Vegalengd 16-18 km.

Á fjórða degi verður gengið frá Landmannahelli um  Hellismannaleið í Landmannalaugar, en þar bíður rúta eftir hópnum. Vegalengd 17 km.

Einhver frávik geta verið á gönguvegalengdum hvern dag eftir leiðarvali og útúrdúrum.

Trúss   
Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum. Þótt ferðirnar séu trússferðir er gott að hafa í huga að trússbíllinn er ekki mjög stór. Því skal takmarka umfang þess farangurs sem tekinn er með. Ágætt er að taka ekki meira með en í hefðbundinni ferð þar sem gengið er með allan farangur. Ganga verður þannig frá öllum farangri að hann blotni ekki þó rigni á hann.

Undirbúningsfundur
Haldinn er undirbúningsfundur fyrir hverja ferð þar sem fararstjóri kynnir leiðina og veitir ráð um útbúnað o.fl. Undirbúningsfundir eru yfirleitt haldnir viku fyrir brottför.