„Tilgangur Útivistar er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi“
Til að ná fram tilgangi félagsins eins og hann birtist í lögum þess er sjálfbær og vistvæn ferðamennska höfð að leiðarljósi. Óspillt náttúra er undirstaða að starfsemi félagsins og því leggur það megináherslu á að vernda náttúruna og að sporna við hvers konar náttúruspjöllum með eftirfarandi að leiðarljósi:
Útivist vill stuðla að og tryggja almannarétt þannig að aðgengi almennings að náttúru Íslands sé óheft án þess þó að landfræðilegum og líffræðilegum fjölbreytileika náttúrunnar sé stefnt í hættu.
Útivist vill vernda náttúru Íslands fyrir framkvæmdum sem kunna að hafa alvarleg áhrif á náttúruna eða raska henni varanlega.
Útivist vill starfa með aðilum sem vinna að náttúruvernd og stefna að framangreindum markmiðum.
Útivist mun leitast við að fræða félagsmenn og þátttakendur í ferðum félagsins um náttúruvernd og vistvæna ferðamennsku.
Útivist mun bæta fyrir neikvæð áhrif sem starfsemi félagsins hefur á náttúruna.
Stjórn Útivistar kemur fram fyrir hönd félagsmanna sinna á opinberum vettvangi í því skyni að tryggja stefnu félagsins í náttúruverndarmálum.