Dags:
fös. 1. ágú. 2025 - mán. 4. ágú. 2025
Brottför:
Brottför kl. 10:00 frá Hrauneyjum
Þriggja daga jeppaferð um slóðir norðan Vatnajökuls. Ferðin hefst í Hálendismiðstöðinni Hrauneyjum og er ekið þaðan norður um Kvíslarveituveg með viðkomu við Hallgrímsvörðu, en hana hlóðu Útivistarfélagar til heiðurs Hallgrími Jónassyni sem var mikilsvirkur í starfi félagsins á sínum tíma og skrifaði meðal annars margar greinar í ársrit Útivistar. Einnig verður höfð viðkoma við forna vörðuþyrpingu þá sem kölluð er “Beinakerling og sjö dætur” og velt vöngum um tilkomu þeirra. Náttstaður fyrstu nóttina verður í Laugafelli þar sem færi gefst á að skola af sér ferðarykið í náttúrulaug.
Úr Laugafelli liggur leiðin niður í Eyjafjörð og ef aðstæður leyfa verður farið um fáfarna slóð út Hólafjall. Þá tekur við nokkur malbiksakstur á Mývatn þar sem upplagt er að fylla eldsneytisgeyma áður en ekið er að Heilagsdal þar sem gist er næstu nótt. Þaðan liggur leiðin um Krákárbotna í Dyngjufjalladal, en dagurinn endar í Herðubreiðarlindum. Lok formlegrar ferðar eru í Herðubreiðarlindum en þaðan er hægt að halda þægilega leið til byggða eða halda áfram að njóta einstakrar náttúru á hálendinu norðan Vatnajökuls.
Ferðin er skipulögð sem tjaldferð en jafnan er gist í nágrenni við fjallaskála og geta þeir sem það kjósa frekar pantað sér gistingu í skálunum.
Fararstjórar: Skúli Skúlason og Egill Rúnar Hjartarsson
Verð 24.000 kr.
Félagsverð 22.000 kr.