Matur og næring

Mataræði er eitt af undirstöðuatriðum ánægjulegrar ferðar.  Nauðsynlegt er að huga vel að því hvaða matar skal neytt í ferðinn.  Mikill munur er á því sem borðað er á morgnana og því sem neytt er á kvöldin að göngu lokinni.

Morgunverður:
Á morgnana er gott að neyta matar sem er ríkur af kolvetnum, s.s. gróft korn og ávextir.  Einnig er gott að neyta próteinríkrar fæðu, en prótein fást úr kjöti, fiski, eggjum og mjólkurvörum. Dæmi um morgunmat er súrmjólk með 100-150 gr af músli eða hafragrautur, hrökkbrauð með smjöri og osti og svo er ágætt að drekka te eða kaffi.

Hádegismatur:
Í hádegismat er gott að borða flatbrauð eða gróft brauð með kæfu eða osti, heita pakkasúpu og orkuríkt nasl á eftir.

Kvöldverður:
Á kvöldin er gott að borða fituríka fæðu, því þá hefur líkaminn nægan tíma til að melta fæðuna. Vinsælt er að nota frostþurrkaðan mat sem fæst í útilífsverslunum.  Þessi matur er frekar dýr og því má einnig mæla með pasta og sósu, sem gjarnan má betrumbæta með rjóma/rjómaosti.  Eftir kvöldmatinn er gott að hita vatn í kakó og borða kex eða súkkulaði með.

Snarl yfir daginn:
Gott er að hafa eitthvert nasl til að grípa í  yfir daginn, svo sem harðfisk, rúsínur, þurrkaða ávexti, hnetur, súkkulaði eða kex. 

Drykkir:
Nauðsynlegt er að hafa nóg af vatni til að drekka yfir daginn. Ef vitað er um læki á gönguleiðinni er óþarfi að bera allt vatn með sér að heiman, heldur má fylla á vatnsílát í lækjunum. Gætið þess að drekka jafnt og þétt yfir daginn.
Nauðsynlegt er að hafa með sér heitt vatn á brúsa, sérstaklega ef kalt er eða hráslagalegt. Kakó er mjög góður hitagjafi en einnig er hægt að hafa með sér kaffi, te eða pakkasúpur.

Gætið þess að borða vel kvöldið fyrir göngu!