Eldgjá endilöng - afmælisferð

Dags:

mán. 4. ágú. 2025 - fim. 7. ágú. 2025

Tími:

Frá Mjódd kl 9:00

Eldgjá endilöng – afmælisferð

Í tilefni 50 ára afmælis Útivistar verður í ágúst farin afar spennandi afmælisferð eftir endilangri Eldgjá frá norðri til suðurs. Eldgjá er 40 km löng og myndaðist í risagosi um árið 939.Hún er eitt af mestu nátturuundrum landsins. Margir kannast við hana þar sem hún sker Fjallabaksleið nyrðri en fáir hafa skoðað hana endilanga. Hér gefst einstakt tækifæri til að skoða í návígi þetta stórbrotna landslag í fylgd fararstjóra sem þekkja svæðið eins og handarbakið á sér og gista í huggulegum skálum Útivistar á leiðinni. Ferðin er trússferð. Vaðskó þarf alla göngudaga.
Fararstjóri: Hákon Gunnarsson.

Ferðaáætlun:

  1. ágúst
    Við höldum úr bænum og hefjum gönguna norðan við Ljónstind. Vaðið er yfir Nyrðri-Ófæru og gengið inn með Ljónstindi að austanverðu og upp á Gjátind sem er um 943 m. Gjátindur markar einmitt norðausturenda Eldgjár. Af Gjátindi er haldið niður í Skælinga og gist í skála Útivistar fyrstu nóttina.
    Hækkun um 450 m. Lækkun 400 m. Ganga 8 km, 3,5 tímar.

 

  1. ágúst
    Gengið frá Skælingaskála upp að Eldgjá og gengið með suðurbörmum hennar og útsýnis notið. Farið niður í Gjána til móts við bílastæðin og yfir Slöngukvísl á göngubrú. Svo er haldið í átt að Mórauðavatnshnjúkum og gjánni fylgt ýmist utan hennar eða ofan í henni. Það er tilvalið að fara á hnjúkana ef veður er gott. Þeir eru 841 m og aukahækkun er um 200 m. Ganga dagsins um Eldgjá endar við flúðirnar í Syðri-Ófæru en svo er rölt 3 km niður að skála Útivistar við Álftavötn. Hækkun um 350 m. Lækkun 450 m. Ganga 18 km, 7 til 8 tímar.

 

  1. ágúst
    Dagurinn hefst með því að koma sér upp að Eldgjá þar sem skilið var við hana deginum áður. Gjánni er svo fylgt til suðurs yfir Svartahnjúksfjöll að Rauðárbotnum. Við skoðum Hólmsárlónsenda og fleiri dásemdir. Nú þarf að fara yfir Hólmsána og verður vaðið valið eftir aðstæðum. Gangan endar við norðurenda Háöldu en þar verðum við sótt og ekið í Skála Útivistar, Strút, þar sem við grillum og njótum okkar um kvöldið.
    Hækkun um 350 m. Lækkun 250 m. Ganga 15 km, 6-8 tímar.

 

  1. ágúst
    Okkur er skutlað að Háöldu aftur og þaðan tökum við stutta göngu að suðurenda Eldgjár við Öldufell. Þar hittir rútan okkur og við förum Öldufellsleið niður á Mýrdalssand og heim.
    Lítil hækkun og lækkun. Ganga um 8 km, 2 til 3 tímar.
Verð 110.000 kr.
Félagsverð 96.000 kr.

Nr.

2508L02