Jarðfræðiferð - Vísindapakkinn

Dags:

lau. 12. apr. 2025

Brottför:

Hist kl 9:00  á bílastæði við Hjallaenda á Heiðmerkurvegi, um 2 km austan Garðabæjar

Þessi viðburður er liðinn.

Jarðfræðiferð í samstarfi við Hið islenska náttúrufræðifélag

Í jarðfræðiferðinni 12 apríl er það Ólafur Ingólfsson Prófessor Emerítus við jarðvísindadeild HÍ sem mun leiða okkur og fræða.  Gengið verður um Búrfellsgjá. Ferðin er auðveld og hentar vel fyrir fjölskylduna.Frítt er fyrir 17 ára og yngri.

Ferðalýsing:

Farið er á eigin bílum og hist á bílastæði við Hjallaenda á Heiðmerkurvegi, um 2 km austan Garðabæjar.

Gengið til austurs að Hjallamisgenginu, og þar verður rætt um eldvirkni í Búrfelli og brotahreyfingar sem ullu myndun misgengja og sprungna á svæðinu. Sprungusveimur Krýsuvíkureldstöðvarinnar, kvikuhlaup og eldgos í Búrfelli – allt á þetta samsvörun í því sem nú er að gerast á Reykjanesi. Við ræðum hvaða ógn Höfuðborgarsvæðinu getur stafað af eldsumbrotum í Krísuvíkurkerfinu.
Stoppað við Vatnsgjá og Gjárétt. Saga mannvirkja þar rædd, og skimað til grunnvatns.
Haldið áfram upp Búrfellsgjá, en hún er um 3,5 km löng hrauntröð sem þrengist smám saman er nær dregur Búrfelli. Ummerki um hrauná sem runnið hefur niður gjána eru skoðuð.
Gengið upp á suðurjaðar gígsins í toppi fjallsins. Búrfell myndaðist í einu eldgosi fyrir um 8000 árum. Gígurinn er um 180 m hár, og um 140 m í þvermál. Gígurinn sjálfur er gjall og klepragígur, hlaðin upp við kvikustrókavirkni úr hrauntjörn í gígnum. Frá eldstöðinni hefur runnið mikið hraun, sem hefur nýrunnið þakið um 25 ferkílómetra, og myndar stóra hluti þess lands sem Hafnarfjarðarbær og Garðabær standa á. Lengst náði hraunið til Álftaness. Hraunið hefur ýmist ásýnd helluhrauns eða apalhrauns, og er um eða yfir 20 m þykkt að jafnaði. Heildarrúmmál hraunsins er um 0,5 rúmkílómetrar. Í hrauninu er fjöldi hella.
Eftir stutta dvöl á toppi Búrfells verður gengið til baka sömu leið – og málin rædd á leiðinni.

Gangan er um 5 km löng, fylgir göngustíg, en dálítil lausamöl síðasta spottann upp á Búrfell. Þetta er auðveld/létt ganga, að mestu nánast á jafnsléttu. Léttir gönguskór með þokkalegu gripi eru æskilegir, og göngustafir geta létt gönguna upp á gígbarminn. Gangan tekur um 4 klst, með góðu tómi til að svipast um og ræða málin.

Um Vísindapakkann – Dagsferðir í samstarfi við HÍN

Í 50 ára starfi Útivistar hefur gjarnan verið blandað saman góðum gönguferðum og skemmtilegri fræðslu. Í tilefni afmælisins efnir Útivist í samstarfi við Hið íslenska náttúrufræðifélag til skemmtilegra og fræðandi vísindaferða þar sem allir eru velkomnir. Farið er á eigin bílum á valda staði í nágrenni höfuðborgarinnar. Staðsetning er valin eftir aðstæðum og verður auglýst vel. Sérfræðingar frá HÍN verða með í för og fræða þátttakendur um undur náttúrunnar. Sumar ferðirnar eru mjög hentugar sem fjölskylduferðir og við vekjum athygli á að í þessar ferðir verður frítt fyrir börn og unglinga upp að 17 ára aldri.

12.april

Jarðfræðiferð

3.maí

Fuglaskoðun

31.maí

Grasafræði

24.ágúst

Sveppaferð

20.sept

Undur fjörunnar

Verð 4.500 kr.
Félagsverð 4.500 kr.

Nr.

2504D02