Strútsstígur

Dags:

þri. 15. júl. 2025 - fös. 18. júl. 2025

Brottför:

Kl. 08:00 frá Mjódd

  • Skáli

Um sunnanvert Fjallabak liggur falleg gönguleið frá Hólaskjóli í austri og vestur í Hvanngil. Margt kætir hug og anda á þessari leið. Fagrir fossar verða á vegi okkar og fögur fjallasýn. Farið er um dalverpi í Hólmsárbotnum þar sem Torfajökul ber við himin og hin rómaða Strútslaug bíður göngumanna. Óhætt er að segja að umhverfi skálans við Strút sé draumaland göngumannsins með ótal möguleikum á skemmtilegum gönguleiðum. Því er dvalið tvær nætur í Strút til að kynnast betur þessu skemmtilega svæði. Á lokadegi göngunnar er haldið áfram frá Strút vestur yfir Veðurháls og að Hvanngili þar sem rúta sækir hópinn.


Trúss   
Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum. Þótt ferðirnar séu trússferðir er gott að hafa í huga að trússbíllinn er ekki mjög stór. Því skal takmarka umfang þess farangurs sem tekinn er með. Ágætt er að taka ekki meira með en í hefðbundinni ferð þar sem gengið er með allan farangur. Ganga verður þannig frá öllum farangri að hann blotni ekki þó rigni á hann.

Dagur 1
Brottför með rútu frá Mjódd (sunnan við bíóið og vestan við Breiðholtskirkju) kl. 08:00. Ekið í Hólaskjól þar sem gangan hefst. Stutt og þægileg ganga að Álftavötnum þar sem gist er í gömlum gangnamannaskála sem Útivist hefur endurbyggt með smekklegum hætti. Vegalengd 6-7 km, göngutími 2 klst. 

Skálinn við Álftavötn

Dagur 2
Gengið með Syðri-Ófæru og inn með hlíðum Svartahnúksfjalla. Áfram liggur leiðin um Hólmsárbotna og að Strútslaug þar sem göngumönnum býðst að fara í bað. Frá lauginni verður haldið að Strútsskála þar sem gist verður næstu tvær nætur. Vegalengd um 20-24 km, göngutími um 7-8 klst. 

Skálinn við Strút  

Dagur 3
Dagurinn nýttur til spennandi gönguferða í nágrenni Strúts. Leiðarval ræðst af veðri og aðstæðum, en umhverfið býður upp á fjölbreytta möguleika á lengri og styttri gönguleiðum, t.d. göngu á Torfajökul, eftir hinu sérstaka Krókagili, göngu á Strút eða eftir Strútsgili. 

Dagur 4
Farið vestur yfir Veðurháls með Mýrdalsjökul á vinstri hönd. Gengið eftir Mælifellssandi hjá Slysaöldu og þaðan yfir Kaldaklofskvísl að Hvanngili þar sem rúta sækir hópinn. Vegalengd um 18 km, göngutími um 7 klst.

Undirbúningsfundur

Haldinn er undirbúningsfundur fyrir hverja ferð þar sem fararstjóri kynnir leiðina og veitir ráð um útbúnað o.fl. Undirbúningsfundir eru yfirleitt haldnir viku fyrir brottför.

Lýsing og aðrar ferðir um Strútsstíg sumarið 2025

Verð 109.000 kr.
Félagsverð 94.000 kr.

Nr.

2507L08