Ekið inn Mosfellsdal, upp að afleggjara að eyðibýlinu Bringum um 3 km ofan við Gljúfrastein og beygt þar til hægri. Vegurinn ekinn til enda þar sem sjá má tóftir eyðibýlisins en þar var búið fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Eftir stutta göngu er komið að Helgufossi í Köldukvísl en farið er yfir ánna á göngubrú. Aðra læki á leiðinni ætti að vera hægt að stikla. Þá er haldið á brattann en gangan upp er þokkalega jöfn og þétt og ekki mjög brött, hæfir því öllum göngumönnum í sæmilegu formi. Efst er komið á Stórhól sem er í 484 m.y.s.
Vegalengd fram og til baka er um 5,5 km og göngutími áætlaður 2,5 klst. Þeir sem vilja ganga lengri leið geta farið niður fjallið til vesturs niður í Helgadal og gengið eftir vegi að Gljúfrasteini og þaðan meðfram hlíð fjallsins að Helgufossi. Heildarvegalengd verður þá um 13 km.