Útivist hefur í samstarfi við Skógræktarfélag Kópavogs hafið uppgræðslu við Heiðarból innan við Selfjall. Því er tilvalið að ganga yfir Selfjallið og líta augum þennan framtíðar sælureit Útivistarfélaga.
Ekið eftir Suðurlandsvegi þar til komið er upp svokallaða Lögbergsbrekku þar sem beygt er til hægri í átt að Waldorfsskólanum. Gangan hefst við bílastæði rétt ofan við Waldorfskólann í Lækjarbotnum. Gengið er upp á hrygg sunnan skólans og hann þræddur upp á efstu bungu Selfjalls. Þar má sjá steyptan stöpul sem líklega hefur verið fyrir útsýnisskífu sem tilvalið væri að endurnýja. Áfram liggur leiðin til vesturs, niður hlíðar Selfjalls. Þegar komið er niður á vegslóða vestan fjallsins er honum fylgt þar til komið er að rústum gamla skálans, Heiðarbóls. Ekkert er eftir nema grunnur skálans en þarna hafa Útivistarfélagar þegar gróðursett nokkra trjágræðlinga. Á bakaleið er haldið beint yfir fjallið og komið í Lækjarbotna nokkuð vestan við Waldorfskólann.
Vegalengd 3,6 km og göngutími 1 - 1,5 klst. Athugið að ekki er skýr gönguslóð á þessari leið, þó svo að á köflum megi finna sæmilega skýran troðning.