Náttúra landsins er sameign þjóðarinnar
Ályktun frá stjórn Ferðafélagins Útivistar
Frá upphafi byggðar á Íslandi hafa Íslendingar haft fullan og skilyrðislausan rétt til ferðalaga um landið. Forfeður okkar töldu mikilvægt að tryggja öllum almenningi rétt til farar um landið án hindrana af hálfu landeiganda. Þó svo margt hafi breyst á síðustu áratugum hvað varðar samgöngur um landið, er þessi réttur þó enn mikilvægur öllum landsmönnum.
Ferðafélagið Útivist er áhugamannafélag fólks sem sækir í að njóta útiveru og góðrar samveru í náttúru landsins. Félagið hefur í 40 ár staðið fyrir fjölbreyttum ferðum fyrir félagsmenn sína og í þessum ferðum hafa fjölmargir landsmenn kynnst landinu og náttúrunni. Þannig hefur félagið unnið að tilgangi sínum sem er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi. Í gönguferðum Ferðafélagisins Útivistar er lögð áhersla á að mynda tengsl við landið, náttúruna og söguna.
Það er grundvallaratiði fyrir starfsemi áhugamannafélaga um útivist að almannaréttur sé tryggður. Náttúruverndarlög voru fyrst sett árið 1956 og komu þar inn ákvæði um almannarétt sem tóku við af hinum fornu ákvæðum úr Grágás. Nokkuð var þrengt að þessum rétti við endurskoðun laganna 1971 og 1999 og síðasta áratug hefur útivistarfólk séð vaxandi þörf á að styrkja þennan rétt almennings á ný. Það tókst þegar ný náttúruverndarlög voru samþykkt á Alþingi 2013, en sem kunnugt er var gildistöku þessara laga frestað. Áður en lögin tóku gildi seint á síðasta ári ákvað Alþingi að svipta almenning þeirri réttarbót sem náðist fram 2013 og færa lög um almannarétt aftur til fyrra horfs. Afleiðingar þess eru nú byrjaðar að koma fram þar sem landeigendur sjá sér núna leik á borði og hindra för útivistarfólks um landið eða krefjast greiðslu fyrir aðgang að náttúrunni.
Ferðafélagið Útivist gerir ekki lítið úr því að ákveðin vandamál kunni að koma upp í tenglsum við aukinn straum ferðamanna til landsins, þegar fyrirtæki í ferðaþjónustu byggja upp atvinnustarfsemi með jafnvel daglegum ferðum á einstaka staði. Slíkt getur vissulega haft í för með sér margvísleg óþægindi fyrir þá sem þar búa eða óeðlilegt álag á einstaka staði. Löggjafarvaldið þarf að setja þar ákveðinn ramma sem tryggir landeigendur gegn óeðlilegum átroðningi af völdum atvinnustarfsemi annarra. Lausnin á því á ekki undir neinum kringumstæðum að vera á kostnað almennings í landinu sem vill njóta útivistar í náttúru landsins.
Ferðafélagið Útivist mun hér eftir sem hingað til beita sér fyrir rétti félagsmanna sinna til að njóta náttúru landsins og skapa þeim tækifæri til þess með því að bjóða upp á fjölbreytilegar ferðir. Félagið hefur alla tíð lagt áherslu á góða umgengni við landið og gætt þess að valda öðrum ekki ónæði eða átroðningi. Félagið er áhugamannafélag sem er ekki rekið í ágóðaskyni, en innheimtir þátttökugjöld til að standa straum af sameignlegum kostnaði í ferðum. Því hafnar félagið öllum kröfum einstaka landeiganda um greiðslur fyrir aðgang að náttúru landsins.
Stjórn Útivistar