Drögum línu í sandinn

11. desember 2015

Náttúra landsins er orðin auðlind, hún skapar gjaldeyristekjur. Við í Útivist höfum lengi litið á náttúru landsins sem verðmæti, alveg óháð því hvort hún skaffi peninga í kassann. Náttúran, og þá ekki síst hálendi landsins, er það sem nærir huga okkar, veitir okkur ómælda gleði og hvíld frá brauðstriti hversdagsins. Út í náttúrunni hverfa vandamálin, stress og argaþras borgarlífsins verður órafjarri.

Við gleðjumst samt yfir því að þeim fjölgar sem telja að það sé þess virði að vernda náttúruna og hálendið. Það skiptir ekki máli hvort það er vegna þess að náttúran sé verðmæt í sjálfu sér eða vegna þeirra tekna sem hún getur skilað þjóðinni um ókomna tíð, aukinn stuðningur við verndun er alltaf af hinu góða. Um áratuga skeið hafa menn séð tækifæri til tekjuöflunar í því að fórna svæðum á hálendinu, nú sjá sífellt fleiri tekjumöguleika í því að vernda hálendið. Á sama tíma fjölgar þeim sem hafa uppgötvað töfra hálendisins og skynja verðmæti þess án þess að þurfa að setja á það sérstakan verðmiða. Þjóðin er farin að meta hálendið og óbyggðirnar að verðleikum.

Nú er því tækifæri til að breyta um kúrs. Það er orðið tímabært að þjóðin dragi línu í sandinn og segi: Nú höfum við spillt nógu miklu af náttúru hálendisins, við höfum ekki efni á að eyðileggja meira af þessum verðmætum. Okkar vegna og ekki síður vegna afkomenda okkar. Það stendur upp á okkur, þjóðina, að taka þessa ákvörðun og það gerum við með því að setja fram skýra kröfu til þeirra sem fara með ákvörðunarvaldið í okkar umboði. Alþingi þarf að taka bindandi ákvörðun sem tekur af öll tvímæli um að verndun hálendisins sé sett í forgang, sem og möguleikar almennings til að njóta þeirrar óspilltu náttúru sem þar er að finna. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti, lög landsins bjóða upp á ýmsar leiðir í því skyni. Líklega er þó sú leið að gera hálendið allt að einum þjóðgarði áhrifaríkust og öruggust.  Það felur í sér afdráttarlausa staðfestingu á verndun hálendisins til lengri tíma litið og kemur í veg fyrir að náttúrunni sé fórnað fyrir þrönga skammtímahagsmuni. Um leið er hægt að grípa til þeirra ráðstafana sem kunna að vera nauðsynlegar vegna vaxandi fjölda ferðamanna, því það er einnig brýnt verkefni.

Verði þetta mikilvæga skref stigið þarf að vanda vel til verka. Því er ekki að leyna að margir hafa ýmsar efasemdir um þjóðgarða og er orsaka þess helst að leita í mistökum sem gerð voru við stofnun og þróun Vatnajökulsþjóðgarðs. Það er ekki til að auka traust að Alþingi gerir óvæntar breytingar á náttúruverndarlögum á mettíma, breytingar sem ganga með afgerandi hætti gegn hagsmunum útivistarfólks. Það má ekki missa sjónar á því að fjölbreyttur hópur landsmanna hefur sterk tengsl við hálendið og þá einstöku staði sem þar er að finna. Verndun hálendisins gegnir fyrst og fremst því hlutverki að við og afkomendur okkar geti notið þess að ferðast þar um. Því er mikilvægt að allir hópar útivistarfólks séu hafðir með í ráðum á öllum stigum og gætt að því að umgengisreglur séu sanngjarnar. Það er vel hægt að tryggja það með góðri og virkri samstöðu í grasrótinni. Það er enginn vafi á að í sameiningu getum við búið til þjóðgarð sem þjóðin getur sameinast um og verið stolt af.

 

Skúli H. Skúlason

framkvæmdastjóri Útivistar