50 ára afmælishátíð Útivistar í Básum

21. janúar 2025

Afmælishátíð í Básum 20-22 júní

Nú er Útivist orðin 50 ára! Þegar haldið er upp á stórafmæli er við hæfi að slá upp veislu og bjóða heim. Fyrir okkur í Útivist er enginn staður sem hentar betur en svæðið okkar fallega í Básum á Goðalandi. Þar hefur Útivist efnt til gönguferða og fagnaðar um Jónsmessu árum saman og nú standur mikið til.

Það eru margar leiðir til að taka þátt í hátíðinni en aðalatriðið er útivera, gleði og gaman.

Aðfaranótt 21. júní er boðið upp á hina árlegu Jónsmessunæturgöngu Útivistar. Nóttin er björt, jöklar varða leiðina og á leiðinni yfir hálsinn eru ummerki eftir eldgosið árið 2010 skoðuð. Þegar komið er í Bása að lokinni göngu gefst færi á að slaka á í dásamlegu umhverfi eftir útiveru næturinnar. Þeir sem vilja taka því heldur rólegar geta gist á leiðinni í Fimmvörðuskála og rölt niður í hátíðahöldin í Básum daginn eftir.

Einnig má sleppa Fimmvörðuhálsgöngu og fara beint í Bása. Í Básum má gista í tjöldum eða skála og byrjar samveran á rólegu föstudagskvöldi og svo verður á laugardeginum boðið upp á dagsgöngur við allra hæfi, bæði stuttar og fjölskylduvænar, sem og  lengri ferðir. M.a. verður boðið upp á skutl að Gígjökli og að ganga með lokaáfanga raðgöngunnar ´Að heiman og heim´ aftur til baka heim í Bása.

Á laugardagskvöldinu tekur svo margrómuð Útivistargleðin völdin þegar allir hóparnir hittast, slegið er upp afmælisgrillveislu og varðeldi.

Hér að neðan eru mismunandi leiðir til að taka þátt.  Það er 15 % afsláttur ef bókað er fyrir 1. apríl.

Afmælishátíð- Fimmvörðuhálsganga

Afmælishátíð - rúta og tjald

Afmælishátíð - rúta og skáli

Afmælishátíð - eigin bíll og tjald

Afmælishátíð - eigin bíll og skáli