Við vorum 18, auk fararstjórans, sem mættum á BSÍ til að fara í stutta sunnudagsgöngu. Veðrið var hið ágætasta þó að spár gerðu ráð fyrir að það myndi versna þegar liði á daginn. Við brunuðum að Húsatóftum þar sem gangan hófst. Lagt var af stað í gönguna klukkan tæplega ellefu. Meðal annars var gengið framhjá Óbrennishólum, Hrafnagjá og að Eldvörpum. Þar fórum við upp á hól þar sem nokkuð vel sást til allra átta, þrátt fyrir að skyggnið væri ekki það allra besta. Var það Rauðhóll eða ekki? Það er spurningin. Samkvæmt loftmyndum á vef Landmælinga Íslands er þetta hann, en samkvæmt Atlaskortinu á sama vef er það ekki hann, þar er hann merktur vestar. En hvað um það. Á leiðinni upp á útsýnisstaðnn okkar gengum við fram á einstaklega fallegan og nokkuð djúpan gíg. Síðan fórum við niður af hólnum og áðum í skjóli vestan við hann. Þegar hér var komið sögu, um klukkan tólf, var aðeins farið að blása en þó ekki mikið.
Að áti loknu var haldið áfram yfir Eldvarpahraun, suður undir Sandfellshæð og yfir Haugsvörðugjá. Um klukkan hálf tvö fór að hvessa allhressilega og frekar blaut slydda fylgdi með. Sem betur fór var veðrið í bakið, hefði ekki viljað hafa það í fangið, svo mikið er víst. Á endanum varð ég að fara í pollabuxurnar, um leið og við tókum smá naslstopp. Síðan strunsuðum við áfram framhjá Presthól að Kalmanstjörn þar sem rútan beið okkar.
Þetta var fín og hressandi ferð þó hún hafi verið í blautari kantinum í lokin. Við gengum tæplega 14,5 km á rúmlega fjórum og hálfum tíma. Fararstjóri var Trausti Pálsson.
Myndir úr göngunni má sjá hér. .