Eins og sagði í tilkynningu hér á síðunni fyrr í vikunni var fyrsta ferð Útivistar eftir stofnun félagsins ganga upp Keili. Á hverju ári síðan hefur verið farin afmælisferð á fjallið. Farið er frá Höskuldarvöllum yfir hraunið að fjallinu. Vegalengd er 8 km og hækkun 200 m. Göngutími er fjórar klst.
Útivist hafði samband við Sólveigu Kristjánsdóttur, en hún var ein af stofnendum Útivistar og var í fyrstu ferðinni á Keili.
„Útivist var stofnuð 23. mars 1975 og helgina á eftir fórum við á Keili. Það var hugur í okkur á þessum tíma og við vildum hafa ferðirnar sem glæsilegastar. Við vorum um 70 sem fórum á Keili í þessa fyrstu ferð og hópurinn samanstóð aðallega af þeim sem mættu á stofnfundinn, ásamt ýmsum öðrum. Mætingin var mjög góð og til marks um það höfðu einungis verið um 10-11 manns í gönguferð á vegum Ferðafélagsins stuttu áður,“ segir Sólveig.
Aðspurð um hvað sé minnisstæðast úr ferðinni segir Sólveig: „Það sem mér þykir minnisstæðast er að við gengum upp austan meginn upp ranann, förum þaðan inn á Höskuldarvelli og gengum þar, en þá var lengri ganga að Keili því vegurinn náði ekki jafn langt inneftir.Þetta var löng röð af fólki og á endanum vorum við komin með áhyggjur um að fjúka því það var svo hvasst. En allir komust á endanum upp,“ segir hún.
Sólveig segir að veturinn á eftir hafi göngum félagsins fjölgað talsvert og að mikið hafi verið um nýjungar. „Við sem höfðum áður verið í Ferðafélaginu töluðum oft um það hversu góð þátttakan var í ferðum Útivistar. Eina helgina þetta sama ár voru þrír til fjórir hópar í ferðum félagsins. Við höfðum oft dagsferðir, þar sem farið var á morgnana kl. 9 og síðan vorum við með aðrar ferðir kl 1 fyrir þá sem vildu ganga hægar. Ég tók eftir því að þegar við fórum að auglýsa rólegar göngur eftir hádegi þá kom mikið af fólki sem hafði haft áhyggjur af því að ferðirnar væru of langar og erfiðar.“
Sólveig hvetur alla til að skrá sig í ferðina upp Keili um helgina. Sjálf er hún búin að vera dugleg á gönguskíðum í vetur og áætlar að fara í vorferð með Jöklarannsóknarfélaginu.