Laugavegurinn - trússferðir (5dagar) Gist í Landmannalaugum fyrstu nóttina
Gönguleiðin á milli Landmannalauga og Þórsmerkur (Bása) kallast Laugavegur. Útivist býður á hverju sumri upp á nokkrar ferðir og er oftast um að ræða 5 daga trússferðir og er gist ýmist í skálum eða tjöldum á leiðinni. Í ferðinni gefst ferðafólki kostur á að kynnast ótrúlega fjölbreyttu og fögru landslagi. Má þar nefna heitar laugar, hveri og jökla. Litadýrðin og fegurð svæðisins er slík að ekki verður lýst með orðum.
Trúss
Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum. Þótt ferðirnar séu trússferðir er gott að hafa í huga að trússbíllinn er ekki mjög stór. Því skal takmarka umfang þess farangurs sem tekinn er með. Ágætt er að taka ekki meira með en í hefðbundinni ferð þar sem gengið er með allan farangur. Ganga verður þannig frá öllum farangri að hann blotni ekki þó rigni á hann.
1. dagur
Brottför kl. 08.00 að morgni, lagt er af stað með rútu frá Mjódd (sunnan við bíóið og vestan við Breiðholtskirkju) og ekið í Landmanna-laugar og farið í síðdegisgöngu. Þar er úr mörgum gönguleiðum að velja og ómissandi hverjum þeim sem unnir íslenskri náttúru að kynnast landslagi og litadýrð „Lauganna”.
2. dagur
Eftir góðan nætursvefn er haldið af stað í lengstu dagleið ferðarinnar, því gengið er alla leið að Álftavatni. Fyrst er gengið um Laugahraun að Brennisteinsöldu, inn að Stórahver og síðan áfram að Hrafntinnuskeri. Eftir góða hvíld í Höskuldsskála á Hrafntinnuskeri liggur leiðin aftur niður á við og farið með Reykjafjöllum og Kaldaklofsfjöllum og síðan fram á brúnir Jökultungna. Ef veður er gott er kjörið að taka á sig krók og ganga á Háskerðing í Kaldaklofsfjöllum, hæsta fjall á þessum slóðum, 1281 m y.s. en þaðan er afbragðs útsýni. Líklegt er að göngufólk verði fegið að geta teygt úr sér þegar komið er að Álftavatni þar sem er gist. Sturta er á staðnum. Vegalengd er 24 km og áætlaður göngutími 9 - 10 klst.
3. dagur
Haldið er austur yfir Brattháls og í Hvanngil þar sem er góður skáli og einnig kjörinn áningarstaður. Þaðan er haldið í suðurátt og farið yfir Kaldaklofskvísl á göngubrú og skömmu síðar þarf að vaða Bláfjallakvísl. Eftir fjögurra km göngu er farið yfir Nyrðri–Emstruá á brú og haldið áfram um slétta sanda niður að skála og tjaldstæði í Botnum. Áætlaður göngutími er 6 - 7 klst. og vegalengd 16 km.
4. dagur
Gengið er niður að Syðri-Emstruá sem rennur undan Entujökli og farið yfir hana á göngubrú og er þá komið á Almenninga og stefna tekin í Bása. Litið er á hrikalegt gljúfur þar sem mætast Syðri-Emstruá og Markarfljót áður en haldið er suður Almenninga. Þar liggur leiðin m.a. um Slyppugil, Bjórgil og yfir Ljósá á lítilli göngubrú. Gengið er upp og yfir Kápu og niður að Þröngá, en hana þarf að vaða. Eftir þetta er leiðin greið um Þórsmörk, yfir göngubrú á Krossá og inn að skálunum góðu í Básum. Vegalengd er um 15 km og áætlaður göngutími 5-7 klst.
Í Básum er góð aðstaða. Þar er hægt að gista bæði í tjaldi og í skála. Hægt er að komast í sturtu. Ætti göngufólk því að geta átt ánægjulega kvöldstund að ferð lokinni í veðursælli gróðurvin á Goðalandi. Ef þörf er á er hægt að senda farangur í Bása. Um kvöldið er svo grill í boði Útivistar.
5. dagur
Á síðasta degi er kjörið að fara í gönguferð áður en haldið er heimleiðis, en möguleikarnir eru óþrjótandi t.d. Réttarfell, Útigönguhöfði, Básahringurinn og Strákagil svo eitthvað sé nefnt.