Laugavegurinn - fjölskylduferð

Dags:

lau. 5. júl. 2025 - mið. 9. júl. 2025

Brottför:

frá Mjódd kl. 08:00

  • Skáli

Hér er klassísk Laugavegsferð þar sem leiðin er gengin í fjórum þægilegum áföngum. Undanfarin ár hefur Ferðafélagið Útivist staðið fyrir velheppnuðum fjölskylduferðum um Laugaveginn. Þarna hafa ungir sem aldnir slegist í för og notið sín. Ferðin er ætluð allri fjölskyldunni og sniðin að þörfum barna. Hér er því upplagt tækifæri til að kynna dásemdir útivistar fyrir yngri kynsklóðinni. Æskilegt að börn hafi náð átta ára aldri.

Ekið úr Mjódd í Landmannalaugar að morgni dags og samdægurs gengið sem leið liggur í Hrafntinnusker þar sem gist er fyrstu nóttina. Úr Hrafntinnuskeri er haldið suður eftir sléttum vestan Reykjafjalla og um Jökultungur í Hvanngil. Úr Hvanngili er gengið um slétta sanda, með Mýrdalsjökul á vinstri hönd, í Emstrur þar sem gist er í Botnaskála. Frá Emstrum liggur leiðin yfir Syðri-Emstruá á göngubrú í fallegu gili og áfram sem leið liggur um Almenninga í Þórsmörk. Í Básum á Goðalandi bíður göngumanna grillveisla í einstöku umhverfi, en þar er gist í notalegum skála. Á sunnudegi er farið í stutta göngu um nágrenni Bása áður en haldið er heim.

Innifalið: Leiðsögn, akstur, skálagisting í fjórar nætur, heit sturta í Básum auk sameiginlegrar kvöldmáltíðar síðasta kvöldið.

Ýtarlegt:

Gönguleiðin á milli Landmannalauga og Þórsmerkur (Bása) kallast Laugavegur. Útivist býður á hverju sumri upp á nokkrar ferðir um svæðið og er oftast um að ræða trússferðir sem taka 5 daga og er ýmist gist í skálum eða tjöldum á leiðinni. Í ferðinni gefst ferðafólki kostur á að kynnast ótrúlega fjölbreyttu og fögru landslagi.  Má þar nefna heitar laugar, hveri og jökla. Litadýrð og fegurð landslagsins er slík að ekki verður lýst með orðum. 

Trúss  
Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum. Þótt ferðirnar séu trússferðir er gott að hafa í huga að trússbíllinn er ekki mjög stór. Því skal takmarka umfang þess farangurs sem tekinn er með. Ágætt er að taka ekki meira með en í hefðbundinni ferð þar sem gengið er með allan farangur. Ganga verður þannig frá öllum farangri að hann blotni ekki þó rigni á hann.


  1. dagur  
    Brottför kl. 08:00 að morgni, lagt af stað með rútu frá Mjódd (sunnan við bíóið og vestan við Breiðholtskirkju) og ekið í Landmannalaugar. Þar fær fólk sér að borða og tekur vatn fyrir daginn áður en haldið er áfram í Hrafntinnusker. Fyrst er gengið um Laugahraun að Brennisteinsöldu og inn að Stórahver og síðan áfram að Hrafntinnuskeri. Vegalengd er 12 km og áætlaður göngutími 4-5 klst. Eftir að ferðalangar hafa komið sér fyrir og fengið sér hressingu í Höskuldsskála á Hrafntinnuskeri er tilvalið að fara í kvöldgöngu til að skoða nágrennið.  T.d. er hægt að ganga á Söðul sem er fjall rétt við skálann en í góðu veðri er þar mikið útsýni. Einnig er stundum gengið að íshellunum í Hrafntinnuskeri.

    2. dagur  
    Nú liggur leiðin niður á við og farið með Reykjafjöllum og Kaldaklofsfjöllum og síðan fram á brúnir Jökultungna. Ef veður er gott er kjörið að taka á sig krók og ganga á Háskerðing í Kaldaklofsfjöllum, hæsta fjall á þessum slóðum, 1281 m y.s. en þaðan er afbragðs útsýni. Vaða þarf Grashagakvísl ásamt Bröttukvísl. Líklegt er að göngufólk verði fegið að geta teygt úr sér þegar komið er að Hvanngili þar sem er gist. Vegalengd er u.þ.b. 16 km og áætlaður göngutími 6-8 klst.

    3. dagur  
    Frá Hvanngili er haldið í suðurátt og farið yfir Kaldaklofskvísl á göngubrú og skömmu síðar þarf að vaða Bláfjallakvísl. Um 4 km síðar er farið yfir Nyrðri–Emstruá á brú og haldið áfram um slétta sanda niður að skála og tjaldstæði í Botnum. Áætlaður göngutími er 6-7 klst. og vegalengd 16 km.

    4. dagur  
    Gengið niður að Syðri-Emstruá sem rennur undan Entujökli, farið yfir hana á göngubrú og er þá komið á Almenninga og stefna tekin í Bása. Litið er á hrikalegt gljúfur þar sem mætast Syðri-Emstruá og Markarfljót áður en haldið er suður Almenninga. Þar liggur leiðin m.a. um Slyppugil, Bjórgil og yfir Ljósá á lítilli göngubrú. Gengið er upp og yfir Kápu og niður að Þröngá og hana þarf að vaða. Eftir það er gengið inn að skálunum góðu í Básum. Vegalengd um 15 km og áætlaður göngutími 5-7 klst. Ferðin endar á laugardagskvöldi með grillveislu í paradísinni Básum þar sem er gist síðustu nóttina í skálum Útivistar eða í tjöldum.

Í Básum er góð aðstaða. Þar er hægt að gista í tjaldi eða í skála.  Hægt er að komast í sturtu. Ætti göngufólk því að geta átt ánægulega kvöldstund að lokinni langri göngu í veðursælli gróðurvin á Goðalandi.
Básar á Goðalandi
Veðrið í Básum

5. dagur  
Á síðasta degi er kjörið að fara í gönguferð áður en haldið er heimleiðis, en möguleikarnir eru óþrjótandi t.d. Réttarfell, Útigönguhöfði, Básahringurinn og Strákagil svo eitthvað sé nefnt.    

Oft er raunin sú að þeir sem fara í skipulagðar ferðir eins og þær sem Útivist býður upp á hafa ekki mikla reynslu af ferðamennsku.  Þegar farið er í langar gönguferðir eins og um Laugaveginn eru mörg lítil atriði sem geta breytt afar ánægjulegri ferð í erfitt og leiðinlegt ark á milli tveggja staða. Til að búa ferðafólk sem best undir ferðina er haldinn fundur þar sem fararstjóri hittir alla þá er hafa áhuga á að fara í ferðina.  Á þessum fundi segir fararstjóri frá ferðatilhögun og nauðsynlegum útbúnaði til ferðarinnar og öðru sem þátttakendur hafa áhuga á að fá upplýsingar um.

Undirbúningsfundirnir eru haldnir fyrir hverja ferð.  

Verð 159.000 kr.
Félagsverð 145.000 kr.

Nr.

2507L01
  • Suðurland