Síðast liðið sumar gekk ég hringinn í kringum Langasjó sem er ein af náttúruperlum okkar Íslendinga. Þetta er fáfarin gönguleið, um 60 km og hún krefst þess að þú berir allan búnað með þér. Þetta er ein af þeim leiðum sem mig hefur alltaf langað að ganga og nú lét ég verða að því.
Ég lagði af stað frá skála Útivistar sem er staðsettur rétt undir Sveinstindi. Þessa tvo daga sem tók að ganga hringinn var veðrið með besta móti, 20 gráður og logn. Þessi veðurskilyrði gerðu þessa göngu frábrugna öðrum göngum sem ég hef farið í vegna þess að hluti af þeim vistum sem ég hafði meðferðis skemmdist í hitanum og hver er í ullarsokkum í göngum á Íslandi í þvílíkum hita? Ég hafði búið mig undir örlítið kaldari aðstæður þar sem Langisjór er staðsettur undir jökli í 600 metra hæð.
Ég varð ekki vör við neinar mannaferðir á leið minni en þó mátti sjá nokkur fótspor í sandinum. Upplifunin var líkt og ég væri ein í heiminum, náttúran og fegurðin umlukti mig og ferðafélagann. Þögnin og kyrrðin var ómetanleg. Þó var markmið ferðarinnar einfalt, njóta samvista hvors annars, upplifa núið og komast aftur til byggða.
Stuttar eða langar gönguferðir í ósnortinni náttúru geta virkað sem góður sálfræðitími hvort sem maður er einn eða í félagsskap annarra. Þar gefst tækifæri til að ræða um það sem liggur manni á hjarta og aðstæðurnar bjóða upp á að á mann sé hlustað, án áreitis. Fyrir mér er útivist ómetanleg og þar slær hjartað mitt.
Markmið Ferðafélagsins Útivistar er að skapa tækifæri fyrir einstaklinga, vana jafnt sem óvana, til að fara í gönguferðir sem þeir annars myndu líklegast aldrei leggja í. Við viljum fara óhefðbundnar sem og hefðbundnar gönguleiðir sem meðlimir Útivistar hafa ánægju af.
Samfélag félagsmannanna er fjölþætt. Hvort sem þú kýst að ganga, hjóla eða fara um á gönguskíðum þá er þetta samansafn af líflegum og uppbyggjandi einstaklingum sem mynda samfélagið okkar, Ferðafélagið Útivist. Ef þú heillast af útivist og frábærum félagsskap þá er Útivist fyrir þig!
Kristjana Ósk Birgisdóttir
Varaformaður Útivistar