Ingibjörg, eða Íbí eins og hún er alltaf kölluð, hefur verið fararstjóri hjá Útivist frá árinu 1993. Hún er mikil hálendisstelpa; nýtur þess að þvælast um gangandi, á skíðum og akandi – og þykir heldur alls ekki leiðinlegt að skondrast á eftir rolluskjátum.
Íbí hefur, auk fararstjórnarinnar, sinnt skálavörslu og farangurstrússi fyrir félagið okkar. Þá á hún sæti í félagskjarnanum og hefur verið virk í nefndastarfi. Annars er hún líka landvörður og hefur starfað sem slíkur undanfarin ár. Auk þessa hefur hún varið drjúgum tíma til náttúruverndarstarfs á undanförnum árum og er formaður Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi.
Rúsínustoppin eru fastur liður í tilverunni í ferðum með Íbí, þótt hún borði alls ekki rúsínur! Hún leggur áherslu á að hópurinn fari heldur hægar en hraðar, því að það skili sér alltaf betur á lengri göngu.
Íbí hefur víðtækan grunn úr björgunarsveitastarfi; er virkur félagi í Flugbjörgunarsveitinni á Hellu og Hjálparsveit skáta í Reykjavík. Hún er sérhæfð í m.a. ferðamennsku og rötun, og hefur gild réttindi í Fyrstu hjálp í óbyggðum (WFR). Þá þykir henni líka reynslan úr skátahreyfingunni, ekki síst hópstjórnin, alltaf nýtast vel.
Sími: 899-8767 - netfang: ibi@flandur.is