Texti: Jóhanna Boeskov
Ársrit Útivistar nr. 20 (1994)
Hér er gott að hittast
hlýju blanda geði.
Ávallt er í skála
Útivistar gleði.
Þessar línur úr ljóði Hallgríms Jónassonar fluttar af höfundi á vígsludegi skálans í Básum 6. ágúst 1983, komu mér í hug er ég settist niður til að setja á blað nokkur orð um ,,Útivist í Básum”. Þær lýsa á einfaldan hátt því andrúmslofti sem félagið hefur verið svo lánsamt að geta skapað í kringum starfsemi sína á þessum góða stað.
Fyrsta árið sem félagið starfaði var farið að kanna möguleika á því að fá afmarkað svæði til umráða. Í hugum stjórnenda félagsins kom fátt annað en Þórsmörk til greina. Landið báðum megin við Krossá, það er að segja Goðland og Þórsmörk hafði í áraraðir verið í umsjón Skógræktar ríkisins, svo til þeirra var sótt. Þann 1. maí 1976 fékk Útivist bréf frá Skógræktinni um ,,húsbóndavald” í dalverpinu Stóraenda innst í Þórsmörkinni. Á næstu árum var unnið þar að gerð tjaldstæða, komið á laggirnar frumstæðri salernisaðstöðu, sáð og borið á. Ýmsir vankantar, svo sem ótryggt vatnsból og lítið undirlendi drógu heldur úr áhuga manna. Fjárhagsstaða félagsins þessi fyrstu ár var ekki beysin svo ekki var ráðist í skálabyggingu í Stóraenda.
Eftir því sem tíminn leið gerðu Útivistarfélagar sér í æ ríkara mæli ljósa nauðsyn þæess að þetta unga ferðafélag eignaðist hús á góðum stað, framtíð þess gæti verið í húfi. Á aðalfundi árið 1979 voru kosnar tvær fjáröflunarnefndir, kvennanefnd og karlanefnd, kannski tímanna tákn! Og nú tóku hjólin að snúast. Stórgjafir og áheit bárust skálabyggingarsjóði. Félaginu áskotnaðist gamalt hús sem var rifið og unnið úr allt nýtilegt efni.
Um leið var ötullega unnið að því að fá Skógræktarstjóra til samninga um aðstöðu sunnan Krossár, á Goðalandi. Snemma sumars 1980 fékkst svo leyfið langþráða og húsinu var valinn staður undir Bólfelli, þar sem heitir í Básum og það er trú mín að vart hafi verið völ á heppilegri eða betri staðsetningu.
Það er ekki ætlunin í þessari stuttu grein að skrifa byggingasögu Útivistar í Básum, hvorki þessarar fyrstu byggingar né annarra sem á eftir komu, enda hefur þeim verið gerð ágæt skil í fyrri ársritum. Þó vil ég fara nokkrum orðum um þetta minnisstæða sumar. Frá fyrstu helgi í júlí fór hópur manna, þetta 20 – 45 manns, svo til um hverja helgi til að vinna hörðum höndum í sjálfboðavinnu við nánast hvað sem var. Um miðjan október stóð húsið fullgert að utan með járni á þaki og gleri í gluggum. Auðvitað myndaðist fastur kjarni sem hélt utan um verkið, en fjölda margir lögðu hönd á plóginn og bera síðan sérstakan hug til staðarins, hug velvildar og væntumþykju. Þessar samverustundir við vinnu og gleði urðu mörgum uppspretta vináttu, góðs kunningsskapar og félagsanda, sem enn býr að. Fyrsta sumarið á Goðalandi voru líka auglýstar ferðir í Bása og voru bílarnir þá oft nýttir bæði fyrir vinnuhóp og farþega. Það sama var gert næsta sumar þegar farið var að snyrta í kringum húsið, lagfæra lóðina og gera margt annað utanhúss. Oftar en ekki buðu einstaklingar í farþegahópnum fram aðstoð sína, hrifust með af vinnugleði Útivistarmanna.
Þegar árið 1982 voru ferðirnar í Bása orðnar vinsælustu helgarferðir á vegum félagsins, rúmlega 1200 manns voru skráðir í ,,Þórsmerkur” ferðir það ár og vænkaðist mjög fjárhagurinn við þetta.Næsta ár var stóra snyrtihúsið reist í brekkunni handan við bæjarlækinn og fannst nú mörgum vera fullbyggt í Básum og þótti ástæða til að halda vígsluhátíð þá sem vikið er að í upphafi þessarar greinar. Ógleymanlegur dagur leið við ræðuhöld, ljóðaflutning og söng. Góðar óskir og gjafir voru fluttar félaginu í einstaklega mikilli en mildri rigningu.
Strax og uppbygging hófst í Básum var flutt þangað í heilu lagi járnvarið gamalt timburhús sem Útivist hafði fengið að gjöf og staðið hafði á horni Sólvallagötu og Bræðraborgarstígs í vesturbæ Reykjavíkur. Bæði götuskiltin voru á því þar sem það stóð á hlaðinu í Básum og höfðu margir gaman af. Þetta vinalega hús þjónaði vel sem svefnstaður, eldhús og verkfærageymsla á meðan fyrstu byggingar framkvæmdir stóðu yfir og eftir það sem viðbótargistirými.. Þegar komið var fram á árið 1984 var ljóst að þörf væri á að endurbyggja húsið, ekki hvað síst til þess að undirbúa þar aðstöðu fyrir skálaverði sem þegar hér var komið sögu voru orðnir starfsmenn félagsins. Í byrjun var skálavörslu sinnt í sjálfboðavinnu af félagsmönnum en eftir því sem umsvif jukust og fjárhagur treystist var hægt að hafa fólk á launum við þessi störf. Fyrst einn mann í tvo mánuði um háannatímann en undanfarin ár hafa verið skálaverðir í Básum í um það bil 4 mánuði á ári og tveir saman þegar mest er um að vera. Þar fyrir utan er skipulögð aðstoð úr röðum félagsmanna allar helgar sumarsins og á öðrum árstímum þegar þörf er á.
Leyfi fékkst til endurbyggingar hússins í byrjun árs 1985 og hófust nú miklar framkvæmdir í Básum. Á grunni gamla hússins reis hið nýja hús að segja má á einni góðri vinnuhelgi í apríl, reyndar eftir fjölmargar vinnustundir Útivistarmanna ,,í bænum”, þar sem allt var tilsagað og sniðið sem hægt var. Húsið var svo tilbúið til notkunar í byrjun sumars og kom sér vel, þar sem fjöldi gesta náði tæplega 2000 þetta árið.
Þegar hér var komið sögu hafði Skógrækt ríkisins ennþá á hendi vörslu Goðalands fyrir utan Bása, svo sem eftirlit, hreinsun og innheimtu gistigjalda og hafði til þess tvo starfsmenn allt sumarið. Stóraukin aðsókn var á svæðið og kom aðallega tvennt til; sú góða snyrtiaðstaða sem Útivist hafði komið upp og nýttist að sjálfsögðu fleirum en gestum Útivistar og svo sú breyting sem var að verða á bílaflota landsmanna. Æ fleiri eignuðust stóra, kraftmikla bíla og fóru nú á eigin vegum í sínar ,,fjallaferðir”. Útivist sóttist eftir að fá umsjón með svæðinu öllu, svo það var mikið fagnaðarefni þegar bréf barst frá Skógrækt ríkisins í byrjun árs 1986 þar að lútandi. Margar ferðir voru farnar til að vinna úti við, sá fræi og sáldra áburði í flög og rofabörð, tjaldstæði hreinsuð, snyrt og bætt með túnþökum. Önnur ósk rættist einnig á þessu ári, göngubrú yfir Hrunaá og hefur það reisulega mannvirki opnað gönguglöðu ferðafólki margar skemmtilegar leiðir um hinar svokölluðu Tungur, austan Hrunaár.
Svo ég haldi nú áfram sögu framkvæmda í Básum, þá var enn á ný ráðist í stórbyggingu. Fljótlega varð ljóst að eldhúsið í stóra skálanum var of lítið. Þegar margt var varð oft nokkur bið á að komast að til þess að elda, þótt margir nýttu sér einnig grillaðstöðu sem búið var að setja upp úti á hlaði. Nú skyldi reist viðbygging, eldhús með aðstöðu til að matast í. Enn áskotnaðist Útivist gamalt hús, gamla íbúðarhúsið á bænum Ægissíðu í Rangárvallasýslu fékkst fyrir að rífa það og fór dymbilvikan árið 1987 í það verk hjá þónokkrum Útivistarfélögum. Allt heillegt timbur var svo notað í bygginguna sem reis um sumarið, fullbúin að utan. Næsta ár var húsið klætt að innan og settar upp innréttingar meðal annars olíueldavél sem yljar upp bæði eldhúsið og skálann og er góð viðbót við gamla góða kolaofninn ,,Kempuna”. Þessi nýbygging breytti ótrúlega miklu. Nú þarf enginn að sitja með matinn sinn á hnjánum eða í besta falli á kolli fyrir framan sig í svefnskálanum, fólk situr nú í stórum og litlum hópum. Þegar við á er hægt að koma fyrir 80–100 manns til fagnaðar af ýmsu tagi. Hefur það ekki hvað síst komið sér vel í ,,stóru” ferðunum sem eru orðnar hefð hjá félaginu, svo sem fjölskylduferð, grillveisla og aðventuferð sem hjá mörgum er fastur liður í undirbúningi jólanna.
Starfsemi Útivistar í Básum hefur tekið miklum breytingum síðustu ár. Í æ ríkara mæli er um að ræða þjónustu og aðstoð við ferðamenn á eigin vegum, einstaklinga og hópa, innlenda sem erlenda. Ferðaskrifstofur gera samninga fyrir allt sumarið, vinnufélagar og félagasamtök panta gistingu og tjaldstæði fram í tímann. Svo koma eigendur húsbíla oft nokkrir saman og fjölskyldur og einstaklingar á eigin bifreiðum. Margt af þessu fólki hefur tekið ástfóstri við staðinn og kemur ár eftir ár. Ég tel það lán félagsins að hafa getað laðað að fjölskyldufólk, fólk sem fer í ferð til að njóta útivistar.
Mikið fjármagn og mörg handtök hafa farið í að bæta aðstöðu af ýmsu tagi. Árið 1989 var sett upp snyrtihús við mynni Strákagils og seinna minni vatnssalerni ásamt krönum og vöskum við ný og gömul tjaldstæði. Ný tjaldstæði hafa verið búin til, sléttað og tyrft á stórum og litlum blettum. Göngustígar hafa verið lagfærðir, stikur reistar og síðastliðið vor voru settir upp vegvísar við vinsælustu gönguleiðirnar.
Til að menn geti betur gert sér í hugarlund umsvif Útivistar í Básum, má nefna nokkrar tölur um gistinætur. Fyrsta árið sem Útivist hafði umsjón með Goðalandinu öllu sóttu rúmlega sjö þúsund manns svæðið heim, árið 1990 var fjöldinn kominn í tæplega tíu þúsund og undanfarin þrjú ár hefur tala gistinátta farið vel yfir þrettán þúsund.
Með vilja hef ég engin nöfn nefnt í þessari umfjöllun um Útivist í Básum en ég ætla að fara örfáum orðum um nefndirnar tvær sem voru kosnar árið 1979, kvennanefnd og karlanefnd. Hvort tveggja átti fyrir þeim að liggja, breyta um nafn og verða tvíkynja. Kvennanefnd snéri sér strax að sölu veitinga á myndakvöldum félagsins, við góðan orðstír og ágæta innkomu enda varð hún fljótlega að láta undan þrýstingi og hleypa karlmönnum í nefndina og heitir hún síðan kaffinefnd. Kaffinefnd hefur fyrst og fremst látið Bása njóta afrakstur vinnu sinnar. Karlanefnd varð að bygginganefnd og hefur þróast yfir í Básanefnd og að sjálfsögðu eru konur þar ómissandi. Meðan á uppbyggingu stóð hafði þessi nefnd forgöngu um skipulagningu og framkvæmd verka í Básum.
Allt þetta nefndafólk og margir margir aðrir eiga heiður og þakkir skilið fyrir óeigingjarnt framlag á öllum sviðum sem fúslega var látið í té. Ég fullyrði að ekki hefði verið hægt að starfrækja félagið með þeim hætti sem hefur verið gert nema vegna þessa mikla áhuga og velvilja fjölda Útivistarmanna.