Þjóðsögur og sagnir

Safnað hefur Björn Finnsson
Ársrit Útivistar nr. 20 (1994)

Nokkrar sögur eru til af Smáafréttum og svæðinu allt vestur að Seljalandsmúla.  Einnig af leiðinni um Lágjökul, þar sem Fimmvörðuháls er, yfir á Goðaland.  Smáafréttir eru svæðið norðan Eyjafjalla frá Krossárjökli að austan, um Goðaland, Staksholt og Steinsholt. Hér á eftir fara flestar þær sögur sem ég hef fundið í bókum og ritum.  Sumar þessara sagna eru til í fleiri en einni útgáfu en ekki tel ég ástæðu til að birta mismunandi afbrigði þeirra hér.Sjálfsagt eru til fleiri sagnir og sögur af þessu svæði sem fengur væri í að fá og mætti þá birta í annarri samantekt.

Guðrúnartungur
Guðrúnartungur heitir afrétturinn á milli Múlatungna, eign Eyvindarmúla í Fljótshlíð, og Teigstungna, eign Teigs í Fljótshlíð. Sagan segir að eitt sinn er upprekstrarmenn ráku fráfærulömb þangað snemma sumars var með þeim niðursetningsstúlka 12 ára gömul er Guðrún hét.  Varð hún viðskila við rekstrarmenn er þeir héldu heimleiðis.  Var lítt skeytt um að leita hennar enda lítilsnýtur vesalingur og var hvarf hennar ekki í hávegum haft. Í fyrstu leitum um haustið bregður gangnamönnum í Tungunum heldur í brún er Guðrún birtist.  Hafði hún fylgt lömbunum um sumarið og lifað á grasi, laufum, vatni og berjum.  Var hún mögur en frárri á fæti en fyrr.  Hún var rekin með fénu heim.  Síðan heitir þar Guðrúnartungur.  Þjóðsögur og þættir Einars Guðmundssonar

Útiganga á Goðalandi
Ýmsir höfðu fé í útigöngu á Goðalandi áður en Skógrækt ríkisins tók landið í sína vörzlu.  Talið var hæfilegt að hafa þar 30 kindur yfir veturinn en oft mun hafa verið haft þar mun fleira fé.

Á árunum 1850 – 1865 hafði maður sá vetrarbeit á Goðalandi er Magnús hét.  Hafði hann viðurnefnið goði.  Átti hann heima undir Eyjafjöllum og var lengi húsmaður á Rauðafelli.  Nokkrum sinnum fór Magnús á vetrum inn á Goðaland til þess að líta eftir kindum sínum.  Fór hann jafnan fótgangandi og aldrei hafði hann mann með sér.  Nesti hafði hann aldrei annað en blóðmör úr súru.  Ekki þorði Magnús að sofa inni í bólinu því að hann var myrkfælinn.  Sat hann jafnan undir kletti þeim er Hattur heitir og dró skinnbelg yfir höfuð sér en þorði ekki að leggjast út af til svefns.
Vetur einn á jólaföstu fór Magnús inn á Goðaland sem oftar.  Snjór var þá nokkur og gerði frost mikið.  Komst Magnús með góðu inn á Goðaland og sat sem jafnan undir Hatti um nætur.  Í nesti hafði hann, eins og áður er sagt, súran blóðmör.  Kjöt tímdi hann ekki að hafa því að hann var nízkur.  En nú var blóðmörinn frosinn og neytti hann því lítils matar.  Magnús hélt síðan heimleiðis er hann hafði hugað að kindum sínum en þá voru lækir allir uppbólgnir vegna hins mikla frosts.  Varð hann að lokum að skríða og komst við illan leik að Stóru-Mörk.  Var hann þá æði mikið kalinn og lá í sárum mest af vetrinum.

Þennan vetur, nokkru eftir hátíðir, gerði hríða veður  mikið.  Varð Magnús þá mjög hræddur um kindur sínar, en þá um haustið hafði hann látið um fimmtíu fjár á Goðaland sem var talið allt of margt.  Buðu menn honum þá að fara inn eftir og moka upp bólin sem fyrir væri fennt en það vildi Magnús ekki vegna nízku sinnar.  Um vorið, er Magnús var gróinn sára og snjóar leystir, fór hann inn á Goðaland að gæta að kindum sínum.  Var þar heldur daufleg aðkoma.  Hafði féð flest fennt í bylnum mikla. Flest var í bóli því sem nefnt er Fuðarnefjaból.  Um þrjátíu kindur voru þar dauðar, þar á meðal fimm ær gráar.  Voru það fjórar systur og móðir þeirra.   Hélt Magnús mikið upp á þessar gráu ær sínar, einkum þá elztu.  Var það forustuær.  Sýnilegt var þegar að var komið að hún hafði verið langt komin með það að brjótast út úr bólinu.  Haft var eftir Magnúsi að þá hefði hann grátið er hann sá þær dauðar.  Ekki átti Magnús fé á Goðalandi eftir þetta.

Þegar Magnús smalaði fé sínu til rúninga á vorin, réttaði hann það í gljúfri því í Staksholti er Gunnufuð heitir.  Vilja sumir láta gljúfrið heita Mangafuð síðan.
                                                Göngur og réttir, Rangárvallasýsla.

Kola-Hjalti Pálsson
Hjalti bjó á Rauðafelli undir Eyjafjöllum Pálsson frá Heynesi Magnússonar á Heylæk Bjarna-Hjaltasonar.  Hjalti drukknaði 1650.  Hann var tvígiftur.  Fyrri kona hans var Dómhildur Ormsdóttir frá Eyjum í Kjós Vigfússonar.   Seinni kona hans var Elín Eiríksdóttir lögréttumanns á Búlandi Sigvaldasonar Halldórssonar sýslumanns á Þykkvabæjarklaustri (um 1550) Skúlasonar Guðmundssonar Sigvaldasonar langlífs.  Í einni ættartölu er Jón Sigvaldason í Holti á Síðu talinn bróðir Eiríks en Jón var faðir Eiríks í Holti sem Holtsætt er frá talin.

Hjalti Pálsson var hraustmenni hið mesta og djarffærinn maður.  Þá fóru menn í skóg bæði á Goðaland og einkum á Þórsmörk.  Hjalti fór eitt sinn með þrjá hesta í taumi.  Þá var Þorleifur á Hlíðarenda Magnússon í Ögri Jónssonar, höfðingi mikill og sýslumaður.  Hann lagði blátt bann við öllu skógarhöggi.  Heyrði hann um för Hjalta og brá sér austur að Seljalandi og ætlaði að sitja fyrir Hjalta og ræna hann feng.  Hjalta var borin njósn af þessari ætlun hans.  Varð það þá úrræði hans að draga sekkina upp Bröttufönn og allt fram á jökul, fyrir framan Goðaland, lét svo upp á hestana og flutti fram að Rauðafelli, sendi Þorleifi svo boð að vildi hann finna Hjalta Pálsson þá yrði hann að bregða sér austur að Rauðafelli.  Eftir þetta var hann kallaður Kola-Hjalti, eins og Hjalti langafi hans í Teigi var kallaður Barna-Hjalti vegna barneigna hans.

Í þennan tíma var siður að reka á afrétti upp úr Kaldaklifi.  Fundu Rauðafellsmenn tófu dauða í bóli einu.  Tóku þeir lágfótu og flógu af henni belg, köstuðu svo kroppnum út fyrir dyr.  Spratt hún þá upp og hljóp á brott.  Sagt er að tófa liggi sem dauð er hún sér engin ráð til undankomu, beri ekkert á henni þó af henni sé fleginn belgur, nema þá skorið er á naflann fitji hún upp á og velti sér svo í moldarflagi.

Um haustið gjörðist dýrbítur mikill á Rauðafelli svo kind fannst bitin á hverjum degi.  Á aðfangadag fyrir jól gekk Hjalti til kinda.  Þá var lausamjöll mikil sem fallið hafði um nóttina og sporrækt.  Hjalti fann þá sauð sem hann átti og þótti vænt um, dýrbitinn.  Rakti hann för tófu norður yfir jökul og allt að hinu sama bóli.  Lá hún þar þá inni undir hellisberginu.  Hjalti setti á hana staf sinn og drap hana, fór svo fram Goðaland og var við Dalskirkju á jóladaginn.  Þótti þetta hraustlega að farið.
                                                                             Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Rekið yfir Jökul (Fimmvörðuháls)
Fjallamenn ráku norður yfir Jökul á vorin, þó einkum lömbin, og suður yfir á haustin, er veður leyfði, því að þetta var miklu styttri leið.

Sumarið 1896 hrepptu menn illveður mikið á jöklinum og skildu lömbin eftir á miðri leið en komust sjálfir við illan leik til byggða.  Ekki var reynt að leita lambanna fyrr en eftir hálfan mánuð.  Sást þá að flest höfðu komizt norður af Jöklinum en þau höfðu lent á gróðurlausum klettum og í ógöngum.  Höfðu mörg þeirra lent á Skaratungnahausi, en þar er graslaust með öllu uppi, og með öllu ógengt niður á graslendi.  Þar er hengiflug niður að fara og skriðjökull að vestan svo sprunginn, að engu kvikindi er fær nema fuglinum fljúgandi.  Nokkur lömb voru lifandi uppi á hausnum en önnur höfðu fokið niður fyrir hamrana.  Lágu þau flest dauð þar neðan undir, en þó voru nokkur lifandi þar fyrir neðan hamrana.  Var mönnum óskiljanlegt hvernig lömbin höfðu komist lifandi niður fyrir hamrana en þau, sem niður voru komin, höfðu farið niður fyrir daginn áður en leitin var hafin.

Eftir þetta bannaði sýslunefnd Rangæinga Fjallamönnum að reka yfir Jökul og hefir það eigi verið gert síðan.
                                                             Göngur og réttir, Rangárvallasýsla

Smávegis um útilegumenn
Lági jökullinn (Eyjafjallajökull) er örmjór á einum stað, og það svo að ekki er nema liðug tveggja tíma ferð yfir hann.  Þar er oft farið með fé og í öðrum erindum, þegar svo ber undir.
Einu sinni var bóndi undir Eyjafjöllum að höggva við á Goðalandi eða á Þórsmörk, og hafðist þar við í nokkra daga.  Hann hafði gert ráð fyrir því að dóttir sín skyldi færa sér mat og lagði hún af stað með vistirnar, en hvarf úr þeirri ferð og vissi enginn hvað henni leið um hríð.  Héldu menn að hún hefði villst og farið sér að voða.
Að þremur vikum liðnum kom stúlkan heim til sín aftur og varð þá ekki séð á henni að hún hefði lent í nokkrum hrakningum.  Hún var spurð hvar hún hefði alið manninn þennan tíma en hún vildi ekkert um það segja.  Þóttust menn vita að hún hefði hlotið að dvelja hjá útilegumönnum.  Sögumann minnir að stúlkan hafi horfið aftur og að enginn hafi haft sögur af henni eftir það.
                                                                 Þjóðsögur Þorsteins Erlingssonar

Litlaland – Stakur

Um 1850 til 1880 bjó bóndi sá í Stóra-Dal er Jón Sigurðsson hét.  Var hann iðjumaður mikill og nokkuð sérsinna kallaður.  Eitt haust fór hann einn til afréttar og var viku í burtu.  Vissi enginn hvað hann hafðist að í þessari för sinni.  Seinna kom í ljós að hann hafði verið að reka hæla í bergið til að ganga upp á Litlaland.  Voru hælarnir sex eða sjö.  Þetta stytti mikið leið á Litlaland.  Annað sem Jón hafðist að í þessari ferð var að hann lagaði til smáskúta í Staki, klappaði hann í bergið og stækkaði skútann.  Hlóð hann síðan vegg fyrir framan.  Varð þarna ágætt skýli fyrir þrjá menn og heldur sér enn eins og hann gekk frá því.
                                                              Göngur og réttir, Rangárvallasýsla

Staksholt (Stakkholt)
Árið 1917 var gerð eftirleit á Staksholt í síðara lagi.  Hafði dregist að gera hana á réttum tíma einhverra orsaka vegna.  Var komið fram á jólaföstu er farið var.  Um sama leyti var gerð þriðja leit á Almenninga.  Snjór var þá kominn og frost nokkurt og harðfenni til fjalla.  Eftirleit á Staksholt var gerð degi fyrr en á Almenninga.  Leitarmönnum gekk vel á Staksholti.  Þeir fengu gott veður en slæmt fjallafæri vegna harðfennis.  Fjórir menn fóru á þennan afrétt.  Voru það þeir Ólafur Ólafsson yngri í Eyvindarholti, Þorvaldur Jónsson í Syðri-Mörk, Erlendur Guðjónsson í Hamragörðum og Högni Kristófersson frá Stóra-Dal.  Færi var slæmt, eins og áður segir, og illfært nema á fjallajárnum.  En þau höfðu þó ekki allir leitarmenn, og var Þorvaldur einn þeirra.  Skaratungur eru brattlendar og þó einkum Uppgangan úr Gjánni (Staksholtsgjá).  Þangað fóru þeir Ólafur, Högni og Þorvaldur.  Var harðfenni þarna mikið.  Ólafur gekk fyrstur niður og var á fjallajárnum.  Þegar hann var kominn miðja leið sér hann Þorvald koma flatan á hörkuferð.  Bregður Ólafur þá við skjótt og stingur staf sínum niður svo vel sem hann getur, þar sem hann heldur að Þorvaldur muni koma niður.  Þetta fór svo vel að Þorvaldur lenti klofvega á stafnum og var þar með borgið, og meiddist hann ekkert þó að ferðin væri mikil.  Fyrir neðan var hengiflug og hefði illa farið hefði Þorvaldur ekki lent á staf Ólafs.  Þeim félögum gekk vel úr þessu og fundu þeir sjö kindur.
                                                                Göngur og réttir, Rangárvallasýsla

Staksholt (Stakkholt)
Eitthvert áranna 1884-1886 mun það hafa verið að tvö lömb, er Jón Sigurðsson í Syðstu-Mörk átti, sluppu á Skaratungum.  Urðu þau eftir í báðum söfnum.  Var síðan ekki gerð tilraun til að ná þeim fyrr en eftir veturnætur.  Gerði þá stillur og frost og gott færi.  Tóku þeir sig þá upp Syðstu-Merkurfeðgar, Jón og Sigurður sonur hans.  Riðu þeir inn á Staksholt.  Var erindið að ná í lömb þau sem áður eru nefnd.  Jón var þá af léttasta skeiði og farinn að stirðna í fjallgöngum.
Þeir feðgar stigu af hestum sínum á Fagraskógi.  Gengu þeir síðan á Skaratungur og fundu bráðlega lömbin.  Reyndust þau vera jafnstygg og fyrr um haustið.  Gátu þeir með engu móti komið þeim niður Uppgönguna.  Eltu þeir lömbin mikið af deginum.  Loks fóru þau niður í Tvístæður sem er snarbrattur flái í Gjánni, rétt vestan við Uppgönguna.  Þeim feðgum þótti illt að hætta við lömbin við svo búið.  Fóru þeir því á eftir þeim niður í fláana, en svo illt sem var að eltast við lömbin uppi reyndist það miklu verra þarna.  Á fláunum voru flóamet sem voru hættuleg yfirferðar, voru þeir feðgar þó vel járnaðir.  Eltust þeir nú við lömbin fram að dimmu.  Að lokum missti Jón fótanna.  Hrapaði hann nú drjúgan spöl en að lokum stöðvaðist hann þó við steinnibbu er upp úr stóð.  Þegar Sigurður sá hvað orðið var reyndi hann að komast til föður síns og bjarga honum.  Tókst það vonum framar, því að fláar þessir eru illgengir fyrir lausan mann.  Sigurður kom þó föður sínum þarna upp og síðan niður Uppgönguna og fram á Fagraskóg til hesta þeirra og síðan heim að Syðstu-Mörk.  Þótti þetta mikil þrekraun því að Jón mátti sér litla eða enga björg veita óstuddur.  Gekk Sigurður ýmist undir föður sínum eða bar hann fram á Fagraskóg.  Verst var að koma honum upp úr fláanum og síðan niður í Gjána.  Jón var mikið meiddur, einkum í baki.  Lá hann lengi vetrar en mun að mestu hafa orðið jafngóður.  Lömbin sóttu síðar aðrir.  Gekk það þá vel.
                                                                 Göngur og réttir, Rangárvallasýsla

Gandreiðin (Fagraskógarból)
Það var einu sinni að smalamenn frá Stóru-Mörk undir Vestur-Eyjafjöllum voru í göngum, í eftirleit meðfram Eyjafjallajökli.  Voru þeir staddir þar sem heitir Fagriskógur á Staksholti.  Þar er hátt fell sem heitir Bólfell.  Dregur það nafn af skúta sem í því er, eða fjárbóli.  Dagur var að kvöldi kominn og þeir höfðu búið um sig í bólinu og voru lagstir til hvíldar.  Heyra þeir þá allt í einu hvin mikinn í lofti og var sem hringlaði í mörgum beislum.  Smalahundarnir létu sem óðir væru og hlupu sem þeir gátu hraðast í þá átt sem þeim virtist hljóðið fara, alla leið fram að Steinsholtsá.  Komu þeir svo aftur, lúpulegir og uppgefnir og voru lengi að jafna sig.
Ekki urðu smalamennirnir varir við neitt fleira um nóttina, og ekkert sáu þeir sem setja mátti í samband við það sem þeir höfðu heyrt um kvöldið.  Voru allir á einu máli um að þetta, sem smalamennirnir heyrðu til, myndi hafa verið gandreið.
                                                   Skrudda, Sögur úr Rangárvallasýslu.

Steinsholt
Steinsholt þótti slæmur afréttur.  Það var eitthvert sumar 1884-87 að þeir Árni bóndi Árnason í Mið-Mörk og Ólafur bóndi Jónsson í Stóru-Mörk fóru með hrúta sína, fimm að tölu, á Innstahausinn.  Hugðust þeir fita þá á góðgresinu þar.  En það fór á aðra leið.  Um sumarið höfðu hrútarnir farið í hillu eina og ekki komist úr henni.  Voru tveir hrapaðir en hinir dauðir úr hungri þegar leitað var.  Sagt er að sjá megi beinin enn í hillunni.
                                                      Göngur og réttir, Rangárvallasýsla

Af Almenningum og Þórsmörk

Tvö vötn eru á leiðinni fram af Almenningum og Þórsmörk, Krossá og Steinsholtsá, meinleysislegar í þurru veðri.  En meinleysissvipurinn fer af þeim er stórrigningar ganga því að þá verða þær hin mestu foröð.  Einkum þó Steinsholtsá.  Er þó bót í máli að hún er jafnan fær uppi undir jökli.  Hét það á Lóni.  Þangað var þó ekki farið nema að  nauðsyn krefði því að leiðin er erfið.  Það var árið 1864 eða 1865 að maður fórst í henni, Símon Guðmundsson í Rotum.  Hafði hann, ásamt öðrum manni, dregizt aftur úr félögum sínum og var komið myrkur er þeir komu að Steinsholtsá.  Reið Símon á undan út í ána en ekki var hesturinn kominn nema lengd sína út í hana er hann valt um, því að áin var bráðófær.  Samferðamaðurinn sá ekki meira af Símoni og hélt síðan að Stóru-Mörk.  Daginn eftir fannst líkið.  Fjallamenn höfðu þá allir, aðrir en þessir tveir, farið yfir á Lóni.  Á Lóni heitir sá hluti af ánni sem er undir Jökli.  Þar er áin straumminni og þrautavað.
                                                        Göngur og réttir, Rangárvallasýsla

Nauthúsabræður
                                      ,,Norðarlega eru Nauthús,
                                         drengir jafnan drekka af krús”,

stendur í gamalli þulu um byggðina undir Eyjafjöllum.  Línur þessar standa líklega í sambandi við sögu þá sem gengur eystra um eyðingu Nauthúsa og nú skal greina.
Einu sinni áttu þrír bræður Nauthús og bjuggu þar.  Tveir þeirra voru ribbaldar miklir og drykkjumenn en sá þriðji var geðspektarmaður og góðmenni.  Þeir bræður áttu eina systur.  Henni kippti mjög í kynið til bróður síns og var honum mjög samrýmd.  Hún var trúlofuð bóndanum í Stóra-Dal og hafði fylgi bróður síns, en hinir tveir voru því svo andstæðir að þeir höfðu strengt þess heit að ráða Stóra-Dalsbóndanum bana ef þau drægju sig nokkuð saman.  Móðir Stóra-Dalsbóndans var ættuð að vestan.  Hún þótti forn í skapi og var það mál manna að hún hefði kennt syni sínum svo mikið að hann vissi lengra en nef hans náði.

Ofstopi og slark þeirra Nauthúsabræðra fór alltaf í vöxt og keyrði seinast svo úr hófi að þeir drápu bróður sinn.  Þá hélst systir þeirra ekki lengur við og flúði til Stóra-Dals.  Bóndinn tók vel á móti henni og er hún þar hjá honum.  Nú er að segja frá þeim bræðrum að þeir leggja hatur á Stóra-Dalsbóndann og sitja um líf hans.  Einu sinni koma þeir að honum uppi í fjalli og ætluðu að drepa hann en hann kom fyrir sig kukli og brá sér í tófulíki og komst þannig undan þeim.  Einu sinni er hann að smala um veturinn og rekur fé sitt úr Merkurengi.  Þá var áll einn af Markarfljóti á ísi.  Þeir bræður koma að honum þegar minnst vonum varir og leggja til hans, svo að hann hefur engin önnur úrræði en að hörfa út í fljótið.  Bræðurnir eru ölvaðir og sækja á eftir og svo fer að lokum að Stóra-Dalsbóndinn kemst undan heill á húfi en þeir bræður drukkna.  Nú er fátt um fólk í Nauthúsum það sem eftir var vetrarins en það þykist þó verða vart við þá bræður og kvisast það um sveitina að þeir munu hafa gengið aftur.  Um vorið vill enginn fara þangað en loksins fær þó systir þeirra bræðra, sem þá var gift Stóra-Dalsbóndanum, frænda sinn til að flytja að jörðinni.  Um sumarið gerðist þar ekkert sögulegt en þegar fór að dimma hófst þar draugagangur mikill.  Þeir bræður gengu ljósum logum, brutu allt og brömluðu, drápu féð og gerðu svo mikinn óskunda, að fólkið hélst varla við í bænum.  Nauthúsabóndinn gerði Stóra-Dalsbóndanum orð og bað hann að leggja sér lið.  Hann brá við skjótt og kom til Nauthúsa kvöld eitt.  Hann var þar um nóttina.  Þá nótt var allt með kyrrum kjörum og bar ekki neitt á neinu en um aftureldingu kom vinnumaður hans með öndina í hálsinum og sagði að allt væri orðið vitlaust í Stóra-Dal.  Þar hafi verið svo mikill draugagangur um nóttina, að allt hafi ætlað um koll að keyra.  Bóndi hélt þegar af stað og linnti draugaganginum jafnskjótt og hann var kominn heim.

Nóttina eftir gerðu draugarnir aftur vart við sig í Nauthúsum.  Það fór á sömu leið, það sem eftir var af vikunni, að þeir riðu þar húsum hverja nótt en enginn varð var við neitt í Stóra-Dal.

Kirkja er í Stóra-Dal og var Stóra-Dalsbóndinn fjárhaldsmaður hennar.  Kvöld eitt var hann einn úti í kirkju að huga að ljósum eða einhverju þvílíku.  Þá veit hann ekki fyrr til en að annar draugurinn kemur aftan að honum og heykir hann niður.  Bóndi sá sitt óvænna, svo að hann biður drauginn að ráða sér ekki bana alveg strax því að hann þurfi að segja honum nokkuð er þeim bræðrum ríði á mjög miklu að vita.  Draugsi tekur því ekki illa.  Bóndi spyr hvar bróðir hans sé.  Draugurinn segir að hann sé fyrir utan.  Hann megi ekki ganga í kirkju því að hann hafi verið slíkt illmenni og fyllisvín í lifanda lífi.  Bóndi furðar sig á því að hann skuli geta komið í kirkjuna.  Draugurinn segir að hann hafi verið miklu betri maður en bróðir sinn því að hann hafi bara látið að orðum hans er þeir hafi gert eitthvað fyrir sér.  Segir hann nú bónda að hann skuli segja sér þetta sem hann hafi ætlað að segja sér, því að nú fari hann að bíta hann á barkann.  Bóndi segir að stúlka ein í Mörk sé þunguð af sínum völdum.  Þeim ríði lífið á að drepa hana, þvíwa að barn það sem hún gangi með eigi að koma þeim fyrir.  Þeir skuli drepa hana næstu nótt og þá geti þeir gjarnan drepið sig en þangað til ætti hann að gefa sér líf í sögulaun.  Draugurinn segir að svo skuli vera en þá verði hann líka að lofa að vera þar úti í kirkju næstu nótt og búast þá við dauða sínum.  Bóndi heitir góðu um það og fer svo draugurinn leiðar sinnar.

Nú er það frá bónda að segja að hann sótti stúlku þá, sem hann hafði bent draugnum á, svo fljótt sem auðið var.  Hann lét hana vera fyrir innan gráturnar í Stóra-Dalskirkju um nóttina.  Svo stökkur hann vígðu vatni um alla kirkjuna, en þó svo að það er svolítill óvígður strimill inn kirkjugólfið.  Að því búnu settist hann út í kórbekk og beið draugsins.  Þegar dimmt var orðið vatt draugurinn sér inn í kirkjuna og sótti hann inn að altarinu.  Bóndi gekk á eftir honum og vígði strimilinn.  Draugurinn komst ekki inn fyrir gráturnar, eins og ekki var við að búast og ætlaði hann þá að ganga aftur fram gólfið og launa bónda hrekkinn en komst ekkert fyrir vatninu.  Bóndi gerði sig jafnvel líklegan til að skvetta vígðu vatni á hann sjálfan og brá draugsa svo við það, að hann fór niður þar sem hann var kominn, en bóndi hafði krossmark á takteinum og rak það niður þar sem draugurinn sökk.  Krossinn stóð langalengi í Stóra-Dalskirkjugólfi en draugurinn sást aldrei síðar, enda geta draugar þeir sem neyddir eru til að fara niður þar sem þeir eru komnir hvergi komið upp aftur nema þar sem þeir sukku ef þeir annars geta það.

Það er af hinum draugnum að segja að hann gerði allt vitlaust í Nauthúsum þessa nótt og næstu nætur svo að bóndinn varð að flýja burt með allt sitt.  Eftir það fýsti engan að fara að Nauthúsum vegna draugagangs og hafa þau verið í eyði síðan en ekki er laust við að þar þyki reimt enn í dag.
                                                          Þjóðsögur Þorsteins Erlingssonar

Helgiathöfn hjá huldufólki
Fremst á Neðra-Dalsheiði undir Eyjafjöllum eru nokkrir gilskorningar sem kallast Smágil.  Liggja þeir niður að Markarfljótsaurum innan við Kattarnefið, sem Katanes hét til forna.  Stampagil heitir hið helsta þessara gilja.  Það var skoðun Neðra-Dalsmanna og margra annarra að huldufólksbyggð væri í Smágiljum.  Sáust oft ljós loga í gluggum þess þar og skyggnir menn sáu einatt til huldufólks, athafna þess og híbýla um þær slóðir.  Vigdís Hallvarðardóttir í Neðra-Dal, sem lézt um 1880, átti einu sinni leið um Smágilin.  Kom hún þar að hamarsnös lítilli og heyrði mikinn söng þar inni fyrir.  Það var sálmurinn ,,Allt eins og blómstrið eina” sem sunginn var fegurri en Vigdís hafði heyrt hann sunginn fyrr.  Stóð hún þar hugfangin og hlustaði unz söngurinn dvínaði út.  Hljómaði henni sá fagri söngur lengi í eyrum á eftir.  Fullviss var Vigdís þess að þarna hefði hún komið að kirkjustað huldufólks á jarðarfarardegi einhvers úr liði þess.
                                                           Sögn Guðrúnar Árnadóttur frá Neðra-Dal

Ljós í Merkurhólum                                                                                          
Ljós hafa sést í Merkurhólum hjá Mörk í Eyjafjallasveit.  Þar hefur jafnan heyrst sungið og leikið á hljóðfæri.  Eru þar búandi álfar og leiðbeina ljós þeirra mönnum frá villu.
                                                           Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Tómas á Söndum

Tómas hét maður er bjó á Söndum í Dalshverfi undir Eyjafjöllum hér um bil um miðju 17. aldar.  Tómas er einn af þeim mönnum er mikið orð hafði á sér fyrir galdra og fjölkynngi, en jafnframt er þess getið að hann hafi verið maður óáleitinn og farið líkast með galdur sinn sem síra Eiríkur fróði á Vogshúsum Magnússon.  Mælt er að Eiríkur hafi lært galdur af Tómasi.  Þeir voru samtíðis uppi og var Tómas miklum mun eldri, enda blanda sögurnar saman glettnisfullum brögðum þeirra og eigna Eiríki það sem Tómas gjörði.
                                                                   Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Stúlkurnar og kirkjugólfið
Tómas gamli fór einu sinni í Dalskirkju sem venja hans var.  Meðal margra annarra er við kirkjuna voru, voru kvenmenn tveir, oflátar miklir, dætur manns þess er þá bjó á Seljalandi.  Tómas gamli var enginn skartmaður og að líkindum heldur fátækur.  Spottuðu þær hann mikið en hann lét sem hann sæi það hvorki né heyrði.  Þær fóru frá kirkjunni strax eftir blessan en Tómas fór ekki frá kirkjunni fyrr en að áliðnum degi.  En er hann kom að Kattarnefi þar sem vegurinn er svo tæpur að varla er ríðandi, stóðu meyjarnar sín hvoru megin vegarins og héldu svo upp um sig fötunum að þær héldu í skyrtufaldana og höfðu staðið þar þannig á sig komnar meðan kirkjufólkið reið fram um.  ,,Hvað eruð þið að gjöra hér stúlkuskepnur?” segir Tómas,  ,,voruð þið að bíða eftir mér?”  En er hann hafði þetta sagt slepptu þær tökum og vöknuðu sem af svefni.  Þá segir hann: ,,Gjörið það ekki oftar, stúlkukindur, að hæða hann gamla Tómas á Söndum”.
                                                                        Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Rakstrarkonurnar
Einu sinni voru konur tvær að raka ljá í Merkurengjum.  Segir þá önnur þeirra: ,,Hvað ætli okkur yrði við ef hann Galdra-Tómas frá Söndum kæmi hingað til okkar?”  ,,Ég held að okkur yrði ekki mikið við” segir hin.  Í þessum sömu svifum kemur Tómas utan frá Múla í erindum sínum innarlegar yfir fljótið og taka þær eftir honum er hann er kominn nokkuð fram fyrir þær.  Tekur sú þá stökk er um ræddi eftir honum og kippir fötunum óhæversklega upp sér til léttis á hlaupunum.  Hin tekur og viðbragð mikið og kallar eftir henni engu minna hlaupandi og biður hana ekki vera að heimsku þessari.  Halda þær alltaf sömu hlaupum en Tómas ríður þéttan á undan þangað til hann er kominn að ál þeim er rennur fyrir framan Fit.  Þar snýr hann aftur hestinum, er stúlkan þar þá komin allt að hestinum ákaflega móð.  Þá segir Tómas: ,,Þetta varð þér við er þú sást hann gamla Tómas á Söndum.  Snúðu nú aftur, ekkert gengur á ljána meðan þú ert að elta mig”.
                                                                         Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Drengurinn í Stóru-Mörk
Einu sinni bjó bóndi í Stóru-Mörk.  Hann átti ungan son ærið kerknissaman og óstýrilátan.  Gekk hann alltaf með steinkasti í hverja smugu sem hann fann og pikki með staf sínum.  Lét hann að einskis manns orðum þó að væri fundið heldur stóð hann upp í hári á hverjum manni.  Fór svo fram um hríð.  Steinn sá er í innanverðum Merkurengjum er Grásteinn heitir.  Lét hann sömu dagsferð ganga þar sem annars staðar.  Þessi drengur hvarf snögglega og fannst hvergi, hvernig sem leitað var.  Fór þá móðir drengsins til Tómasar á Söndum og bað hann verða vísan hvað af drengnum væri orðið og þá að ná honum.  En Tómas færðist undan og hélt henni mundi það lítill harmaléttir.  Herti hún svo að Tómasi að hann lofaði að gera sitt til.  Einn dag fór hann að Grásteini og sat þar hjá steininum allt til kvölds.  Þá var líkama drengsins snarað raman í hann öllum bláum og blóðugum, sundurmörðum og tættum.  Fór hann svo heim með hræ hans og afhenti móðurinni.
                                                                  Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Reynihríslan í Syðstu-Mörk
Í Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum var reyniviðarhrísla í gili í högunum, en þau álög lágu á hríslunni að hver sem tæki grein af henni yrði fyrir einhverjum slysum.  Bóndi einn í Mörk vildi vita hvort satt væri, var ekki uppnæmur fyrir öllu og trúði þessu illa.  Einn daginn fór hann og sníður grein af hríslunni og hefur heim með sér.  Nóttina eftir kemur kona til hans í draumi.  Er hún svipmikil mjög og segir: Vel gastu látið vera að sníða grein af hríslunni minni.  Vissir þú vel hvað við lá.  Ræð ég þér að gera það ekki aftur ef þú vilt ekki hafa verra af en komið er.  Morguninn eftir lá snemmbæra dauð á básnum.  Um daginn fer bóndi aftur og sníður stærri grein af og fer með heim.  Um nóttina dreymir hann sömu konuna sem er enn reiðilegri en fyrr, hefur uppi sömu orð og fyrr og skuli hann hafa enn verra af haldi hann áfram iðju sinni.  Morguninn eftir lá reiðhestur hans dauður.  Bónda þykir illt að láta undan svo hann fer og sníður enn þá stærri grein af trénu og fer heim með.  Um nóttina kemur konan og er mjög illileg.  Sagði hann skyldi komast að því fullkeyptu svo hann hætti þessu.  Um morguninn var sjö vetra sonur hans horfinn og fannst ekki hvernig sem leitað var.  En er bóndi var á gangi í högum eftir þetta þá var kastað í hann slitrum af fötum drengsins.  Upp frá þessu lét bóndi reynihrísluna í friði.
                                                                            Gríma hin nýja

Hríslurnar í Syðstu-Mörk
Um aldamótin bjó Gottskálkur bóndi í Syðstu-Mörk.  Nálægt bænum fram með Syðstu-Merkurá stóðu hríslur nokkrar sem fólk hafði trú á að ekki mætti hreyfa en bóndi trúði því ekki og tók að rífa upp hríslu og eftir að hann hafði rifið upp fyrstu hrísluna dó strax besta kýrin hans, en hann lét þar ekki við lenda og reif nokkru síðar upp aðra hríslu og þá datt konan hans um búrþröskuldinn og lá alltaf veik úr því.  Síðan reif hann upp þriðju hrísluna og þá hvarf sonur hans á jóladaginn og fannst vorið eftir á hnausunum fyrir ofan Sauðsvöll undir Eyjafjöllum.
                                                                              Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Nykurinn í Markarfljóti
Nálægt 1870 átti maður nokkur leið yfir Markarfljót fyir ofan Dímon.  Hann kom að fljótinu í myrkri en af því að hann var hundkunnugur hugði hann að sér væru allir vegir færir.  Maðurinn vissi að það braut á steini á vaðinu en hyldýpi var allt í kringum það langa vegu.  Þegar hann kom að fljótinu kannaðist hann ekki vel við landslagið en honum heyrðist brjóta þar á steini og lagði því út í það því að vaðið gat ekki annars staðar verið.
Þegar maðurinn var nýkominn út í dýpkaði óðum þvert á móti því sem átti að vera á vaðinu en hann var nærri því kominn á sund þegar hann gat snúið hestinum við og komist til sama lands.  Maðurinn reið nú kippkorn með fljótinu fann rétta vaðið og komst þar klakklaust yfir.  Morguninn eftir kom honum til hugar að gaman væri að vita hvar hann hefði lagt út í fljótið kvöldið áður.  Hann reið því ofan að því og sá að hann hafði riðið út í harðan streng sem var á að giska 5-6 álna djúpur í miðjunni svo að þar gat ekki borið á steini.  Maðurinn þóttist reyndar þekkja landslagið en þótti kynlegt að hann skyldi hafa álpast þarna út í.  Reið hann því yfir fljótið aftur til þess að taka af sér allan grun og sá hann þá að sporin eftir hest hans lágu út í strenginn.  Þetta var lagt svo út að nykurinn í fljótinu hefði látið manninn heyrast brjóta á steini til þess að tæla hann út í það á vaðleysu.
                                                                 Þjóðsögur Þorsteins Erlingssonar

Skatan í Þverá

Eins og alkunnugt er liggja jökulvötn þau sem falla milli Fljótshlíðar og Eyjafjalla í ýmsum stöðum þegar þau koma fram á láglendið.  Þegar þau falla hið eystra er kallað þau liggi í Markarfljóti og hafa þau gjört þar miklar skemmdir, einkanlega í  Stóra-Dalssókn.  Þegar þau falla að vestanverðu er kallað þau liggi í Þverá og hafa þau þá gjört mikinn usla í allri Fljótshlíð og enda í Hvolhreppi og Vestur-Landeyjum.  Þar lágu þau hér um bil í 60 ár til skamms tíma (fram yfir 1850), en að þau hafi runnið undan þeim.  Hin glöggvustu merki hinna fornu landbrota sjást í innanverðri Fljótshlíð og til þeirra bendir saga þessi:

Einu sinni bjó kona í Eyvindarmúla er Hólmfríður hét og var kölluð hin ríka.  Átti hún bæði alla Eyvindarmúlaeignina og alla Stóra-Dalseignina.  Hún var ekkja þegar þessi saga gjörðist.  Jón Hallsson hét maður sá sem réð fyrir búi hennar.  Var hann bæði skáld og fjölkunnugur og segja sumir að hann væri hinn sami og Jón biskup Arason nefnir í vísu sinni um skáld á Íslandi.

Í þennan tíma tóku jökulvötnin að falla út í Þverá rétt innan byggðar á móts við Streitur eins og hún hefur gjört síðan og fylgdu mikil landbrot þessu vatnahlaupi.  Jón kom þá að málið við Hólmfríði og spurði hana ef hún ætti um að velja hvort hún vildi heldur að Dalseignin eða Múlaeignin skemmdist af þessum vatnaágangi.  Hún kvað flestum verða fyrst fyrir að byrgja þann brunninn sem næstur væri.  Jón fór þá út í hjall og tók þar gamla skötu harða, fór með hana inn á Streitur, magnaði hana og fleygði henni eða hleypi í ána oglagðist þá jökulvatnið allt að austanverðu í Markarfljót og gjörði mikinn skaða undir Eyjafjöllum bæði í Dalshverfinu og víðar.  Vel og lengi varði skatan Þverá, en á þessari öld hefur hún annað hvort verið orðin svo ellimóð að hún hefur ekki lengur dugað eða að hún hefur verið dauð með öllu.
Annars er sagt að menn hafi á seinni tímum tekið gráan fresskött og gráan ullarlagð, haft þar ýmsa formála fyrir, en engan þeirra hef ég heyrt, og fleygt síðan hvoru tveggja í ána, en víst er um það að kettirnir hafa ekki leyst v erk sitt eins vel af hendi og skatan forðum.

Eftir þetta er sagt að Jón Hallson hafi flust vestur á land og var það mörgum árum seinna að maður nokkur austan undan Eyjafjöllum kom á bæ hans.  Tók Jón manninn tali úti í kirkju og spyr hann tíðanda að austan, meðal annars spurði hann hvar jökulvötnin þar eystra rynnu núna.  ,,Þar sem þú og fjandinn skildu við þau seinast,” svaraði maðurinn.  Hann sá að Jón þykktist af þessu og gekk út þegar.  Manninn fer nú margt að gruna og tekur það ráð að hann fer að hurðarbaki, stígur upp á hurðarokana og heldur sér þar.  Að vörmu spori sér hann að vofa kemur inn í kirkjuna og fer innar eftir henni og litast um, snýr síðan aftur utar eftir, en kemur ekki auga á manninn.  Í þessu bili kemur Jón inn í dyrnar og litast um.  Hyggur hann að sendingin hafi riðið manninum að fullu en varð nú sjálfur fyrir henni án þess að vera við því búinn, og drap sendingin Jón þegar í stað þar í kirkjudyrunum.
Á seinni tímum þykjast menn hafa orðið varir við skímsli í Þverá í skötulíki en ekki hafa menn sett það í samband við skötu Jóns Hallssonar.  Átti kvikindi þetta að halda sig í Þverá innanverðri og aldrei framar en á móts við Breiðabólstað.

Svo er haft eftir séra Runólfi sem fyrst þjónaði Stórólfshvols- og Skúmstaðaþingum og síðan Keldnaþingum að hann hafi einu sinni riðið Þverá á móts við Breiðabólstað og hafi þá ókind þessi orðið fyrir hesti hans svo hann datt undir presti, gaf þá ókindin sig upp og veltist frá og sá prestur glöggt í skötuörðin. Prestur komst aftur á hest sinn og til lands.
                                                              Þjóðsögur Jóns Árnasonar

Útilegumenn í Jökuldal

Sagt er að dalur einn mikill og einkennilegur liggi eftir Mýrdalsjökli endilöngum.  Rennur á eftir honum og úr honum eftir djúpu hamragljúfri bak við Eyjafjallajökul alla leið í Markarfljót.  Til að komast í dalinn verður að fylgja ánni eftir gljúfrinu þótt ógreitt sé, þrengist gljúfrið þegar innar kemur uns það lýkst saman að ofanverðu svo engin birta nær til að komast ofan í það á löngu svæði.  Opnast gilið aftur er ofar dregur og víkkar þangað til dalurinn tekur við.  Ekki vissu menn að farið hafi verið um langan aldur en sögur eru til um útilegumenn þar.
                                                                     Gríma hin nýja

Dalurinn í Eyjafjallajökli
Það eru aðeins þrjú eða fjögur ár síðan nú, að maður, sem þá átti heima í Álftaveri tók í sig að ganga á Eyjafjallajökul austanverðan.  Þegar hann er kominn æðilangt upp á jökulinn sér hann þar í dal mjóan, en svo langan að hann gekk vestur eftir öllum jökli svo langt sem augað eygði.  Hann sá og í honum grænar brekkur en ekki gat hann komist að honum til að skoða hann, því allsstaðar urðu þar fyrir jökulsprungur.  Og ekki hefur enn fengist nein vissa fyrir því hvort þessi dalur standi í sambandi við hinn, sem er Almenningamegin, og er það ekki röskmannlegt af afkomendum hinna fornu stórmenna að ganga ekki úr skugga um þetta og annað eins.
Frá þessu sagði sá maður móður sinni sem sjálfur sá og er þetta, svo kunnugt sé, hinn síðasti vitnisburður sjónarvotta um tilveru þessa dals, enda er sá vitnisburður aðeins þriggja ára gamall.
                                                                     Þjóðsögur Þorsteins Erlingssonar