Texti: Rannveig Ólafsdóttir
Ársrit Útivistar nr. 20 (1994)
Við hefjum þessa ferð okkar inn á Goðaland við nýju brúna yfir Markarfljót gegnt Seljalandsmúla en þaðan eru um 30 km inn að Goðalandi.
Frá Markarfljótsbrú að Nauthúsagili
Þessi nýjasta brú yfir Markarfljót var opnuð árið 1992 og er sú þriðja í röðinni sem byggð er yfir Fljótið. Eftir að við komum yfir brúna beygjum við fljótlega af þjóðvegi nr. 1 til norðausturs við býlið Seljaland. Seljaland er fornt stórbýli og fyrrum sýslumannssetur. Vestur frá bænum er merkilegur hellir sem nefnist Kverkarhellir en hann var um skeið þingstaður Vestur-Eyjafjallahrepps. Fyrr en varir erum við komin að Seljalandsfossi, einum af hæstu og fallegustu fossum landsins. Það er vel þess virði að eyða dálítilli stund hér við fossinn og gaman er að ganga á bak við hann. Seljalandsfoss fellur fram af fornum sjávarhömrum. Í lok síðustu ísaldar er loftslag hlýnaði bráðnaði ísinn hratt og sjávarstaða hækkaði skyndilega mjög mikið. En samhliða því að ísfarginu létti af landinu lyftist landið í leit að nýju jafnvægi. Sjórinn fylgdi ísbrúninni inn í landið og kaffærði m.a. allt Suðurlandsundirlendið. Hæstu sjávarstöðulínur hér á Suðurlandi eru í um 100 m y.s. en annars staðar á landinu eru þær yfirleitt í um 40 – 60 m. Mesta áflæðið var fyrir um 11000 árum. Upprisa landsins hélt hins vegar áfram og fyrir um 8000 árum þegar Þjórsárhraunin runnu var sjávarstaða mun lægri en hún er nú. Bráðnun Ameríkujökulsins hélt áfram þar til fyrir um 5000 árum þannig að sjávarstaða hækkaði aftur að því sem nú er.
Hér skammt norðan við Seljalandsfoss steypist annar foss og ekki síðri, fram af sjávarhömrunum. Þetta er Gljúfurárfoss sem í daglegu tali heimamanna er kallaður Gljúfrabúi. Tilvalið er að lengja útiveruna og ganga frá Seljalandsfossi að Gljúfrabúa. Til að sjá fossinn vel þarf að ganga upp á klettanefið fyrir framan hann sem kallast Franskanef. Fyrir neðan Franskanef er gömul baðþró og inn af þrónni lítill helllir sem heitir Ömpuhellir eftir einsetukonu sem þar á að hafa búið. Fyrir ofan Franskanef eru tvær hvilftir inn í bergið sem nefnast Efra og Neðra ból. Í Neðra bóli var fyrr á tímum þurrkaður þvottur en í Efra bóli voru þurrkuð reipi og má enn sjá snaga í berginu í báðum þessum bólum. Töluvert sunnan við Gljúfrabúa er lítið gil í hamravegginn þar sem hægt er að fara upp á heiðina fyrir ofan. Talað var um að fara upp Stíginn og lækurinn í gilinu nefndur Stígslækur. Stígurinn er enn nokkuð skýr, hálfgerðar tröppur eru upp þar sem er brattast. Rétt fyrir ofan brúnina eru leifar gamalla fjárhúsa frá Hamragörðum. Aðeins ofar tekur við skógræktarsvæði Skógræktarfélags Rangæinga en Gljúfrabúi er í landi eyðijarðarinnar Hamragarða sem Skógræktarfélag Rangæinga fékk að gjöf árið 1962.
Við höldum nú áfram með veginum. Nokkru norðan við Hamragarða beygir vegurinn fyrir klettahöfða sem kallast Kattarnef en hét samkvæmt Landnámu Katanes til forna. Markarfljót rann fyrrum upp að þessum höfða og mun oft hafa verið illfært að komast fyrir hann. Því telja sumir að héðan sé komið orðtakið ,,að koma einhverjum fyrir kattarnef”.
Við förum næst framhjá Dals-bæjunum en þar er nú mest áberandi hin sérkennilega kirkjubygging í Stóra-Dal sem vígð var árið 1969. Stóri-Dalur er fornt höfuðból og höfðingjasetur. Þar bjó meðal annarra Runólfur Úlfsson sem fór fyrir heiðnum mönnum á Alþingi er kristni var lögtekin hér á landi árið 1000.Við erum nú komin að elstu brúnni yfir Markarfljót sem yfirleitt er alltaf kölluð gamla brúin. Við förum ekki yfir hana heldur beygjum inn á afleggjarann sem liggur til austurs í átt að Þórsmörk og Goðalandi.
Gamla brúin yfir Markarfljót var fullgerð og vígð árið 1934. Þó að hún sé ansi ótraust að sjá í dag var hún á sínum tíma mikið mannvirki. Hún er 242 m löng og var um langt skeið lengsta steypta brú landsins. Við vígslu brúarinnar var haldin mikil hátíð og safnaðist við það tækifæri fjöldi fólks saman á Litlu-Dímon við eystri enda brúarinnar. Árið 1978 var önnur brú byggð yfir Markarfljótið á Emstrunum og opnaðist þá leið úr Fljótshlíðinni inn á Fjallabaksvegi. Þar var áður kláfferja en hún var aflögð er brúin var opnuð.
Líklegt er talið að Markarfljót dragi nafn sitt af Þórsmörk þótt Markarfljótið falli ekki nema skamman spöl meðfram Þórsmörkinni. Þó er eftirtektarvert að í Landnámu er eingöngu talað um Fljótið en ekki Markarfljót þannig að það heiti virðist hafa komið til seinna. Markarfljót á meginupptök sín í Hrafntinnuskeri, Reykjadölum og Torfajökli. Markarfljót eru 100 km á lengd frá upptökum til ósa og vatnasvið þess er um 1070 km2. Áður en Markarfljót var brúað var það mikill farartálmi og olli oft stórfelldum spjöllum á nytjalandi en rennslið var í miklum sveiflum eftir árstíma og úrkomu. Fyrr á öldum rann Markarfljót iðulega austur með Eyjafjöllum, alla leið austur í Holtsós. Auk landskemmda olli Markarfljót miklum samgönguörðugleikum. Menn reyndu á ýmsan hátt að verjast Fljótinu, aðallega með því að hlaða fyrir það á jörðum sínum en lítt dugði. Það var jafnvel leitað til fjölkunnugra og er frægastur Ögmundur í Auraseli við Þverá á síðari hluta 19. aldar sem stöðvaði vatnaágang á óþekktan hátt. Fyrsti varnargarðurinn var gerður austan Markarfljóts úr Seljalandsmúla árið 1907, 1 km langur til að hindra að Fljótið rynni austur með Eyjafjöllum. Síðan hefur hver varnargarðurinn á fætur öðrum verið reistur til þess að halda Markarfljóti í skefjum. Þeir hafa dugað vel við að stjórna rennsli Fljótsins en varnargarðar þessir eru nú undir eftirliti Vegagerðarinnar.
Áður fyrr töldu menn að skrímsli í skötulíki byggi í Markarfljóti og til eru frásagnir fjölda manna sem séð hafa skrímslið í ánni. Samkvæmt þjóðsögum Jóns Árnasonar er skrímslið þannig til komið að fjölkunnugur maður, Jón að nafni, tók gamla og herta skötu, magnaði hana upp og fleygði henni síðan í Þverá í því skyni að verja Fljótshlíðinga ágangi jökulvatna, og þá fyrst og fremst Markarfljóts sem féll oft á tíðum í Þverá og olli hinum verstu spjöllum á Fljótshlíðarjörðum. Við þetta lagðist allt jökulvatnið úr Markarfljóti að austanverðu og gerði mikinn skaða undir Eyjafjöllum.
Á Markarfljótsaurum norðvestan við Markarfljót er áberandi stakt fell. Fell þetta nefnist Stóra-Dímon. Í Stóru-Dímon koma saman mörk Austur-Landeyja, Fljótshlíðar og Vestur-Eyjafjalla. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók mun nafnið Dímon vera komið úr fornírsku og merkja tvífjall og átti upphaflega við tvítyppta hæð. Litla-Dímon er í suðaustur frá Stóru-Dímon, sunnan við eystri brúarsporð gömlu Markarfljótsbrúarinnar. Nokkur gróður er í Stóru-Dímon og var talið að þar væri 50 – 60 kinda beit vetur og sumar. Vestan við Stóru-Dímon hefur áður fyrr verið miklu meira graslendi en síðar varð því að þar mun hafa verið býlið Dímonarhólmi fram á 16. eða 17. öld.
Stóra-Dímon er eitt af sögusviðum Njálssögu. Fellið er hins vegar ekki kallað því nafni í Njálu, heldur Rauðuskriður. Í austurbrekku fellsins má enn finna örnefnið Rauðuskriður og er almennt álitið að nafnið sé komið af litnum af grjótinu sem þar kemur víða fram. Frá því er sagt í Njálssögu að þeir Njálssynir og Kári Sölmundarson hafi setið fyrir Þráni Sigfússyni og hans mönnum í Rauðuskriðum. Þráinn þurfti ekki að kemba hærurnar að þeim fundi loknum því eins og frægt er þá stökk Skarphéðinn Njálsson tólf álnir (7,50 m) yfir Markarfljót á milli höfuðísa, renndi sér fram fótskriðu og keyrði síðan öxi sína, Rimmugýgi, í höfuð Þráni svo stóð á jöxlum. Í Njálssögu er einnig sagt frá því að þeir Gunnar á Hlíðarenda og Njáll á Bergþórshvoli áttu saman skóg í Rauðuskriðum og gerðu þar til kola. Það var þar í skóginum sem Kolur verkstjóri Gunnars og Hallgerðar vó Svart húskarl Njáls og Bergþóru þegar hann vann þar við kolagerð. Var þetta fyrsta vígið í deilum þeirra kvenna Hallgerðar og Bergþóru. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er þess getið að spjót hafi fundist þar sem heitir Rauðuskriður, við rætur fjallsins Dímonar.
Þegar við erum komin töluvert inn fyrir gömlu Markarfljótsbrúna blasir við reisulegur bær á hægri hönd. Þetta er Stóra-Mörk, en alls eru Merkurbæirnir þrír. Syðstur er Syðsta-Mörk, þá Mið-Mörk og nyrstur er Stóra-Mörk. Stóra-Mörk var kirkjustaður og höfðingjasetur á miðöldum og kirkjur voru einnig í Mið-Mörk og Syðstu-Mörk. Í Stóru-Mörk fæddist skáldið Þorsteinn Erlingsson. Það er talið að Stóra-Mörk sé sú Mörk sem oft er nefnd í Njálu sem bær Ketils Sigfússonar tengdasonar Njáls á Bergþórshvoli þótt ekki hafi fundist þar neinar minjar um bæ Ketils. Í landi Syðstu-Merkur er vatnsból Vestmanneyja, merkilegt mannvirki sem lætur ekki mikið yfir sér.Rétt innan við Stóru-Mörk var fyrrum lítil hjáleiga frá Stóru-Mörk sem nefndist Grófartún. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1709 er þess getið að einungis tóftir bæru veru hjáleigunnar vitni þar sem menn muni hvorki hennar fyrstu byggð né þess hvenær hún lagðist í eyði.
Á hæðinni ofan við Stóru-Mörk blasir við í góðu skyggni mikið útsýni yfir til Fljótshlíðar, Tindfjalla, Tindfjallajökuls og vesturhluta Mýrdalsjökuls, en hæsta bunga Mýrdalsjökuls (1480 m y.s.) er einmitt beint upp af Teigstungum inn af Goðalandi. Þríhyrningur gnæfir yfir Fljótshlíðinni eins og kastali. Hann dregur nafn sitt af þremur hyrnum eða hornum sem standa upp úr fjallinu. Héðan frá blasir við okkur dalur sem gengur upp eftir miðri suðurhlíð fjallsins. Dalur þessi nefnist Flosadalur eftir Flosa Þórðarsyni en samkvæmt frásögn Njálu mun Flosi hafa falið sig og lið sitt í dalnum fyrst eftir Njálsbrennu. Lengra í austur, við enda Fljótshlíðarinnar, blasir við annað voldugt fjall, Þórólfsfell, kennt við landnámsmanninn Þórólf Asksson sem að sögn Landnámu byggði sér bæ undir fellinu. Í Njálu er sagt frá því að Njáll hafi gefið Skarphéðni syni sínum bæ undir Þórólfsfelli.
Við höldum austur með veginum og stoppum við litla á, Nauthúsaá. Í fyrstu virðist hún lítt merkileg. Við skiljum bílinn eftir á veginum og göngum upp að Nauthúsagili sem áin rennur úr. Nauthúsagil er kennt við hjáleigu Stóru-Merkur, Nauthús, sem stóð uppi við gilið. Af nafninu er helst að ráða að upphaflega hafi verið þarna nautgripahús frá Stóru-Mörk en síðar hafi hjáleigan verið reist nálægt staðnum sem gripahúsin stóðu áður. Engar aðgengilegar heimildir eru til um hvenær byggð eyddist á Nauthúsum. Jarðabókin getur eyðibýlisins Nauthúsa en þar segir jafnframt að enginn viti um fyrstu byggð þar né hvenær sú byggð lagðist af. En þjóðsaga ein hermir að bræður tveir frá Nauthúsum hafi verið miklir ribbaldar og drykkjumenn sem drukknuðu báðir í Markarfljóti er þeir ætluðu að drepa bóndann í Stóra-Dal sem kvæntur var systur þeirra. Gengu bræðurnir báðir aftur og varð engum vært í Nauthúsum eftir það. Sagan segir að Nauthús hafi við þetta fallið í eyði og ekki byggst framar og að enn sé reimt hér á Nauthúsum.
Nauthúsagil er þröngt og djúpt. Hægt er að ganga töluvert inn eftir gilinu ef menn eru tilbúnir að vaða eða stikla ána nokkrum sinnum. Það er vel þess virði því gilið á fáa sína líka. Innst í gilinu er hár foss en það sem vekur hvað mesta athygli er hinn mikli trjágróður sem skreytir gilbarmana og fæstir búast við að sjá. Nauthúsagil er frægast fyrir reynitré sem stóð fremst í nyrðri gilbarminum. Það var talið eitt mesta tré á Íslandi. Helgi var á trénu og olli óhöppum að skerða það. Reynitré þetta er m.a. talið hafa dafnað svo vel vegna þess að skammt frá rótum þess var lengi fjárból og hefur tréð vafalaust sótt þangað næringu. Aldur trésins vita menn ekki með vissu en árið 1937 brotnaði einn stofn þess og við rannsókn þótti sýnt að hann væri ekki yngri en 90 ára gamall. Gamla reynitréð er nú fyrir löngu fallið og nýtt risið upp af rótum þess. Reynitrén í Múlakoti í Fljótshlíð eru ættuð frá gamla trénu hér í Nauthúsagili. Nokkru innan við Nauthúsagil er fallegt gil sem nefnist Hellissel. Í gilinu er lítill foss og hellisskúti og bendir örnefnið til þess að þar hafi verið sel á árum áður. Tilvalið er að ganga frá Nauthúsagili yfir í Hellissel eða öfugt.
Að Merkurkeri
Við keyrum áfram og stönsum næst við litla á sem nefnist Sauðá. Sauðá heitir svo eftir hömrunum vestan við ána. Það er líklegt að örnefnið sé tilkomið vegna fornra sauðhúsa en í gamla daga voru sauðhús alltaf höfð langt frá öðrum húsum. Sauðá og gilið eða sprungan sem hún rennur úr lætur lítið yfir sér séð frá veginum. Hér virðist því við fyrstu sýn lítill tilgangur að stoppa annar en sá að rétta úr sér og njóta útsýnisins. En sé gengið upp með ánni að gilkjaftinum vaknar forvitnin fljótt því áin bókstaflega hverfur inn í bergið. Sé þetta skoðað nánar kemur í ljós að áin rennur í gegnum stóra sprungu í fjallinu. Hluti af fjallshlíðinni hefur klofnað frá meginfjallinu og þannig myndast sprunga í gegnum hlíðina sem áin fellur eftir. Til þess að komast inn í hvilftina fyrir innan sprunguna, sem nefnist Merkurker, er annaðhvort að ganga yfir bergranann sem féll frá fjallinu eða að vaða ána í sprungunni sem er mun ævintýralegri og eftirminnilegri leið. Sprungan er fremur þröng og dimm og verður að vaða ána upp fyrir hné upp á móti straumi. Eftir því sem hinn endi sprungunnar nálgast birtir smátt og smátt og Merkurkerið opnast eins og nýr heimur. Innst úr Merkurkeri sunnanverðu blasir við djúpt hamragil sem nefnist Illagil. Norðan við það er áberandi gnípa er nefnist Burst og mun draga nafn af lögun sinni. Við göngum tilbaka yfir bergranann og virðum fyrir okkur hlíðina þar sem bergraninn klofnaði frá fjallinu. Maður einn frá Stóru-Mörk, Júlíus Einarsson að nafni, mun eitt sinn hafa stokkið þarna yfir er hann var að eltast við nokkrar rollur. Sá, sem verður það á að misstíga sig í því stökki, verður ekki til frásagnar og vonandi að enginn reyni að leika þetta eftir honum.
Á leið okkar að bílnum höfum við stórkostlegt útsýni yfir Tindfjöll og Tindfjallajökul í norðri. Tindfjallajökull hefur verið toppur mikillar eldkeilu. Við stór gos á ísöld hefur myndast stór askja í miðri eldkeilunni og toppur hennar sigið niður. Hæsti tindur jökulsins (1462 m y.s.) heitir Ýmir, eftir frumjötni þeim sem Óðinn og bræður hans gerðu af himni og jörð. Við hliðina á honum austan megin er annar tindur örlítið lægri (1448 m y.s.) sem ber tröllkonunafnið Ýma. Þrátt fyrir forn nöfn eru þetta nýnefni á þessum stað. Fjallagarparnir Pálmi Hannesson og Jón Eyþórsson gáfu þessi nöfn á ferðum sínum um svæðið á sjötta áratugnum og birtust þau fyrst á korti árið 1964.
Frá Merkurkeri að Gígjökli
Næsta á sem við ökum yfir heitir Selá. Hún rennur úr Selgili en um það orti Guðrún Auðunsdóttir frá Stóru-Mörk:
Andar köldu oft um haust
er þó varla að meini.
Í Selgili er sólarlaust
sunnan undir steini.
Sumarið 1980 reisti björgunarsveit herliðsins á Keflavíkurflugvelli miklar tjaldbúðir í Selgili vegna æfinga þeirra á Eyjafjallajökli. Hugðust þeir dvelja þar allt sumarið en var vísað burt af heimamönnum sem vildu með því mótmæla að íslensk yfirvöld veittu leyfi til heræfinga þarna án samráðs við heimamenn.
Að sögn Sturlubókar Landnámu nefnist allt undirlendið hér fyrir innan Stóru-Mörk og inn að Jökulsá, Langanes. Langanes var stór hluti af landnámi Ásgerðar Asksdóttur sem Njála kallar móður Njáls á Bergþórshvoli en Landnáma ömmu hans. Ásgerður nam land milli Seljalandsmúla og Markarfljóts og Langaness allt upp til Jöldusteins. Jöldusteinn er lítill hóll eða sker á eyrunum á móts við mynni Steinsholtsár. Jalda merkir stóðmeri en í mörgum heimildum hafa menn viljað sleppa j-inu framan af og kallað hólinn Öldustein.
Við höldum áfram í austur og opnast nú gott útsýni í norðaustur inn á Emstrur, afréttarland Hvolhreppinga. Ganga um Emsrtur er næstsíðasta dagleiðin þegar gengið er frá Landmannalaugum yfir á Þórsmörk og Goðaland. Örnefnið Emstrur hefur vafist fyrir mörgum en Þórhallur Vilmundarson telur nafnið vera dregið af sagnorðinu amstra, þ.e. þrælka, kveinka sér eða nafnorðinu amstur, þ.e. ómak, erfiði. Emstrurnar munu löngum hafa þótt erfiðar til smölunar og þá fyrst og fremst vegna ófærra vatnsfalla.
Við ökum framhjá Grýtugili sem dregur nafn af strýtumynduðum tindi er Grýta nefnist. Þegar gengið er á Eyjafjallajökul er oft farið upp hrygginn innan við gilið hjá Grýtutindi. Þá er gengin svokölluð Skerjaleið sem talin er vera ein auðveldasta leiðin upp á jökulinn. Oft er einnig gengið á Eyjafjallajökul frá Stóru-Mörk, frá Hátindum í Stakkholti, af Fimmvörðuhálsi og frá Seljavöllum að sunnan.
Innan við Grýtugil taka við fremur brattir hamraveggir og þar fyrir innan mörg gil sem nefnast einu nafni Smjörgil. Ef litið er þarna upp má sjá að þar er nýr skriðjökull að myndast sem hefur verið að skríða fram sl. 10 ár og fer nú ört stækkandi. Fyrir 15-20 árum mátti ganga ofan við Smjörgilin á auðu. Af Smjörgiljum taka við Innstuhausar. Niður af þeim er uppblásinn hóll sem heitir Áslákshóll. Þar er talið hafa verið kuml og hafa fundist þar ýmsir fornmunir. Árið 1909 bárust Þjóðminjasafninu þrír gripir, spjót, brýni og þrjár sviptir á hring steyptar úr bronsi sem fundust í hólnum og eru nú varðveittir í safninu.
Nú erum við komin að Jökulsá sem fellur undan Gígjökli. Við förum efra vaðið við sjálft útfallið úr jökullóninu framan við skriðjökulinn. Þar fer saman traustur botn og hægur straumur. Gígjökull er einnig oft nefndur Falljökull eða Skriðjökull. Hann er annar tveggja skriðjökla sem falla norður úr Eyjafjallajökli alveg niður á láglendi. Gígjökull fellur úr stórri gígskál eða öskju sem talin er vera efst á Eyjafjallajökli. Á suðurbarmi öskjunnar er Goðasteinn (1600 m y.s.) hæsta bunga jökulsins. Þjóðsagan segir að Goðasteinn taki nafn af því að Eyfellingar hafi flutt þangað öll goðin er kristni var lögtekin á Íslandi. Á norðurbarmi öskjunnar virðist vera mikið skarð og út um það treðst megnið af þeim ís sem myndar Gígjökul. Skriðjökullinn er mjög brattur og sprunginn. Í hlíðum hans má enn sjá vikurdembuna úr Heklugosinu 1947. Þá varð stór hluti Eyjafjallajökuls svartur. Svarti liturinn hvarf fljótlega undir nýjar snjófyrningar á hájöklinum en skriðjöklarnir eru enn að bera fram vikurinn. Umhverfis skriðjökulstunguna og lónið eru háir jökulgarðar sem marka mestu framsókn Gígjökuls fyrir og um síðustu aldamót. Þá náði hann allt að kílómetra lengra fram en nú og kúffyllti alla skálina á milli jökulgarðanna. Um og fyrir 1930 nam jökullinn enn við brúnir jökulgarðanna. Jökullinn tók ekki að hörfa að neinu ráði fyrr en eftir 1930 og lón tók ekki að myndast fyrr en eftir 1940. Hin síðari ár hefur Gígjökull verið mjög vinsælt æfingasvæði fyrir ísklifur.
Eyjafjallajökull er ein fárra eldkeilna á Íslandi sem gosið hafa á nútíma. Gossaga hans er enn ókunn en eldkeilan mun hafa verið nær fullmynduð í ísaldarlok. Í Skarðsárannál er getið um gos í Eyjafjallajökli árið 1612 og þar sagt að sést hafi til þess um meginhluta Norðurlands. Eyjafjallajökull gaus síðast árin 1821 og 1822. Samkvæmt skýrslu Steingríms Jónssonar í Odda hófst gosið 19. desember 1821. Fylgdi því mikið öskufall og jökulhlaup. Skömmu eftir nýár 1822 rénaði gosið og lét lítið á sér kræla fram á sumar. Þann 26. júní spjó jökullinn eldi og ösku á ný með aukinni ákefð svo aska barst alla leið vestur á Seltjarnarnes. Gosið rénaði undir lok júlí. Eftir það mun lítið hafa sést til elds í jöklinum en öskugos stóð fram undir árslok 1822. Haustið 1944 nauðlenti bandarísk B-17 herflugvél á Eyjafjallajökli skammt vestan Gígjökuls. Áhöfnin slapp lifandi úr brotlendingunni og komst niður af jöklinum, yfir Markarfljótið og að Fljótsdal. Í smalamennsku fyrir nokkrum árum tók smali frá Stóru-Mörk eftir braki úr herflugvélinni í innsta Smjörgilinu. Við nánari athugun sá hann að litlir brakbútar lágu niður eftir öllum lækjarfarveginum frá jökultungunni í gilinu. Svo augljóst er að langt er síðan vélin fór að berast undan jökli. Vorið 1952 fórst bandarísk Grumman Albatross björgunarflugvél á Eyjafjallajökli og með henni fimm menn. Aðeins eitt lík fannst á slysstað þannig að auðséð var að hinir fjórir höfðu komist lifandi frá flakinu. Þeir komu þó ekki fram og fundust ekki þrátt fyrir mikla leit. Það var ekki fyrr en tólf árum seinna að annað lík fannst og einnig fingur með giftingarhringi af öðrum manni áhafnarinnar. Tveimur árum síðar, eða sumarið 1966, fundust svo lík hinna þriggja í Gígjökli. Haustið 1975 fórst enn ein bandarísk flugvél á Eyjafjallajökli og ein hjón með henni.
Frá Gígjökli að Steinsholtsjökli
Eftir að hafa andað að okkur köldu og heilnæmu loftinu frá jöklinum og fleytt nokkrar kerlingar á Jökullóninu höldum við áfram. Frá vaðinu á Jökulsá er um hálfs annars kílómetra vegur inn að næstu jökulá sem er Steinsholtsá. Sú leið sveigir fyrir norðurenda háa jökulgarðsins austan við Jökullónið. Austan við jökulgarðinn er hin svonefnda Hoftorfa. Líklegt er að nafn hennar standi í einhverju sambandi vð hof goðans á Svertingsstöðum. En samkvæmt Sturlubók Landnámu byggði Jörundur goði, sonur Hrafns hins heimska, fyrir vestan Fljót þar er nú heitir á Svertingsstöðum og reisti þar hof mikið. Engar heimildir eru til um staðsetningu Svertingsstaða en vel geta þeir hafa staðið einhvers staðar á því landi sem Markarfljót hefur nú lagt undir veldi sitt. Að sögn Landnámu lá ,,bjórr ónuminn fyrir austan Fljót milli Krossár og Jöldusteins; það land fór Jörundur eldi og lagði til hofs”. Munnmæli herma að hofið hafi staðið undir kletti í miðri Hoftorfu. Á melnum norður frá Hoftorfu er Símonarsteinn. Hann er kenndur við Símon Guðmundsson bónda á Borgareyrum sem drukknaði í Steinsholtsá um 1870. Var lík hans lagt til undir steininum og geymt þar uns tækifæri gafst til að flytja það til byggða.
Svæðið hér á milli Jökulsár og Steinsholtsár og hlíðin á milli skriðjöklanna nefnist Steinsholt. Brynjúlfur Jónsson getur þess í Árbók Fornleifafélagsins árið 1894 að líklegt sé að nafnið Steinfinnsstaðir hafi breyst í Steinsholt. Almennt er þó álitið að nafnið sé tilkomið vegna þess hve afrétturinn er gróðurlítill og illa fallinn til smölunar. Hlíðin er sundurskorin af djúpum giljum en á milli þeirra skaga fram svonefndir hausar. Hver haus hefur sitt nafn en þeir heita frá vestri til austurs: Fremstihaus við Gígjökul, Helluhaus, Mosahaus, Kirkjuhöfuð og Innstihaus við Steinsholtsjökul. Í heimildum má sjá þessi örnefni ýmist rituð –höfuð eða –haus. Kirkjuhöfuð er þó ávallt ritað þannig. Líklegt þykir mér að –haus hafi ekki þótt kirkjunnar mönnum þóknanlegt. Mið-Mörk, Fit og Fitjamýri undir Eyjafjöllum áttu hérna upprekstur.
Við eru nú komin að Steinsholtsá sem rennur undan Steinsholtsjökli. Steinsholtsjökull sést ekki frá veginum og við geymum gönguna upp að honum þar til við komum aðeins lengra austur. Þegar komið er yfir Steinsholtsá blasir við okkur sérkennilegt umhverfi. Risastór björg eru á víð og dreif eins og að þeim hafi verið kastað hingað niður af himnum ofan. Þetta má að nokkru leyti til sanns vegar færa. Þann 15.janúar árið 1967 féll stór bergspilda á Steinsholtsjökul úr Innstahaus, sem áður var getið. Innstihaus er um 400 m hátt þverhnípi við vestanverða Steinsholtsjökul. Því hafði verið veitt eftirtekt nokkru áður að sprunga var tekin að myndast nokkuð frá bergstálinu inni á fjallinu og víkkaði hún smám saman vegna frosts og þíðu. Loks kom að því að jafnvægið hafði raskast það mikið að bergspildan hrundi niður og skall á skriðjöklinum. Jökullinn brotnaði upp og jafnframt skvettist mikil flóðbylgja úr jökullóninu fyrir framan jökulsporðinn sem flutti með sér feiknin öll af ísjökum og stórgrýti. Bergspildan sem féll á jökulinn er áætluð um 40 millj. tonn af bergi. Auk þessara 40 milljóna tonna af bergi voru það nokkrar milljónir rúmmetra af jökulís sem fóru sömu leið. Grjót, ísjakar, samþjappað loft og vatn úr Steinsholtslóni flæddi áfram um 40 km veg eða alla leið út í sjó við Markarfljótsós. Af þessu leiddi gífurlegt hlaup úr jöklinum fram í Markarfljót svo að mesta rennsli fljótsins við Markarfljótsbrú nam 2100 m/sek. Titringur frá hrauninu mældist á jarðskjálftamælum alla leið austur á Kirkjubæjarklaustri í 75 km fjarlægð. Rúmmál stærstu bjarganna hér á flötinni við Steinsholtsá er áætlað um 80 m3 og þyngdin um 200 tonn. Ferðafélag Íslands kom fyrir minningarplötu á stærsta bjarginu um Jóhannes Kolbeinsson, en Ríkissjónvarpið tók viðtal við Jóhannes við bjargið árið 1967 í sambandi við hamfarirnar og var það ein af fyrstu beinu útsendingum sjónvarpsins.
Við höldum aðeins lengra áfram að grasi gróinni hlíð sem mun hafa verið skógi vaxin fram á miðja 18. öld. Hér er nú alveg skóglaust og aðeins örnefnið, Fagriskógur, sem ber fyrri gróðri vitni. Nokkrar örlitlar plöntur sem ungliðahreyfing Rauða Krossins hefur gróðursett hér í Fagraskógi munu vonandi um ókomna framtíð halda við örnefni staðarins. Fagriskógur var nátthagi fyrir sauðfé meðan menn voru hér enn við leitir en þær lögðust endanlega niður árið 1989. Fjárrétt fyrir Suðurafrétti, sem tilheyrðu Vestur-Eyjafjallahreppi, var hér vestast í Fagraskógi kölluð Stakkholtsrétt. Hún stóð á bakka Steinsholtsár við svokallað Réttarnef þar sem Steinsholtsá sveigir norður til Krossáraura. Réttin sópaðist burt í Steinsholtshlaupinu svo að hennar sér nú vart nokkur merki. Rétt innan við Fagraskóg rís Bólhöfuð, brattur múli sem gengur norður úr Suðurhlíðum en svo nefnist fjallsraninn fyrir ofan Fagraskóg. Neðarlega í Bólhöfði er gamalt náttból leitarmanna sem nefnist Fagraskógarból. Það var af sumum talið mikið reimleikaból og er það því einnig oft nefnt Draugaból.
Til þess að fara að Steinsholtsjökli er best að ganga upp Suðurhlíðar. Steinsholtsjökull er bæði brattur og úfinn eins og granni hans Gígjökull. Aðfangasvæði hans er hjarnbrekkan mikla norðaustur frá öskjunni á hájökli Eyjafjallajökuls. Þaðan teygir hann sig niður á láglendið og endar í Steinsholtslóninu. Lónið mun ekki hafa farið að myndast að ráði fyrr en upp úr 1951 og um 1960 var það orðið svipað að stærð og nú.
Um Stakkholt, Stakkholtsgjá og að Goðalandi.
Við skiljum næst við bílinn við Stakkholtsgjá, eina stórkostlegustu gjá landsins. Stakkholtsgjá er um 1-2 km löng og allt að 100 m djúp og tekur ganga fram og tilbaka um gjána um klukkustund. Þverhníptir hamraveggirnir eru að mestu leyti mosavaxnir sem gefur gjánni ævintýralegan blæ. Innarlega þrengist gjáin og klofnar í tvennt. Innst í vinstri hlutanum, sem er þrengri, steypist niður ólýsanlegur foss sem er náttúruundur vert allrar skoðunar. Stakkholtsgjá tilheyrir móbergsmyndun frá síðustu ísöld. Hún er að mestu leyti orðin til við vatnsrof en sennilegt er að mótun hennar hafi byrjað undir jökli. Stakkholtsgjá er á miðjum Stakkholtsafrétti, sem nær frá Hvannárgili í austri að Steinsholtsá í vestri, og skiptir hún afréttinum í Innafrétt og Framafrétt. Stakkholt dregur nafn af litlu, stöku felli á Krossáraurum rétt vestan við Hvanná sem heitir Stakkur en margir telja að Stakur hljóti að vera réttnefni. Neðst í norðanverðum Stakki er lítið ból þar sem fjallmenn lágu stundum við og ekki laust við að það hafi einnig verið bendlað við reimleika eins og Fagraskógsbólið.
Sunnan við Stakk er Stakkháls en norðan í honum innanverðum eru svonefndar Nauthillur. Áður fyrr og allt fram til áranna um 1880, gengu naut á sumrum á Þórsmörk. Eitt sumarið fóru nautin suður yfir Krossá og í hillur þessar en komust ekki til baka. Sultu þar sum til bana en önnur hröpuðu til dauðs. Sagt er að naut sem voru á Þórsmörk hafi orðið mjög ill vegna þess að þegar þau öskruðu var þeim alltaf svarað, þ.e. það bergmálaði alls staðar svo mikið að þau heyrðu alltaf í sjálfum sér.
Við höldum áfram og framundan okkur á hægri hönd opnast nú Hvannárgil. Hvannárgil skiptist innar í Norðurgil og Suðurgil og nær Norðurgilið inn að Heljarkambi sunnan við Morinsheiði. Fremst í gilinu vestanmegin er stór lóðrétt hellissprunga í hamravegg Stakkholts. Þessi sprunga er ýmist nefnd Gunnufuð eða Mangafuð. Fyrra nafnið er þannig tilkomið að einhvern tíma bjuggu hjón að Efstakoti undir Eyjafjöllum. Hét konan Guðrún en ekki er getið um nafn bóndans. Eitt sumar í sláttubyrjun hurfu hjónakornin frá bæ sínum og vissi enginn hvað um þau varð. Ekki skildu þau við bæ sinn tómhent því nokkuð höfðu þau haft með sér af búsgögnum. Af þessu héldu menn helst að þau hefðu lagst út og var þeirra því leitað til afrétta. Þegar leitarmenn komu á Stakkholt sáu þeir reyk leggja upp úr Hvannárgljúfri. Hjúin voru þá í hellissprungu þessari og höfðu stolið fráfærulambi og voru langt komin með að sjóða það. Voru þau fönguð og flutt til byggða. Í Gunnufuði réttaði Magnús goði, er svo var nefndur, síðar fé sitt. Var nafni þess þá breytt og það kallað Mangafuð.
Við keyrum nú meðfram Krossánni sunnanmegin. Krossá rennur undan samnefndum jökli sem skríður fram úr Mýrdalsjökli. Áður en Krossá rennur hingað hafa tvær stærri kvíslir, Tungnaá og Hrunaá, runnið í hana. Ekki er mönnum kunnugt um uppruna örnefnisins Krossár. Jón Böðvarsson hefur sett fram þá hugmynd að nafnið sé komið frá því að áin ,,krossi” sitt og hvað yfir aurana og í því sambandi bendir hann á að sögnin,,að krossa” sé gömul mynd í íslensku sem nú sé glötuð skyld ensku sögninni ,,to cross”.
Norðan Krossár er Þórsmörk. Vestast er Merkurraninn sem heitir fullu nafni Þórsmerkurrani. Mjókkar hann eftir því sem vestar dregur og kallast fremsti hluti hans Eggjar þar sem Krossá og Markarfljót mætast. Þessi fremsti hluti Þórsmerkur-ranans er nú nær örfoka. Innar í sunnanverðum Rananum er breið, grasi gróin dæld. Nefnist hún Engidalur og hefur enn að mestu staðist hervirki uppblástursins og stingur fagurgrænt engið nú í stúf við auðnina umhverfis. Áður fyrr kom það fyrir að Fljótshlíðingar heyjuðu í Engidal. Innan við Engidal rís Valahnúkur brattur og óárennilegur héðan frá séð. Vestan í honum, í svonefndu Hestagili er enn eitt bólið, Valahnúksból sem lengi var náttstaður gangnamanna. Þar var einnig stór fjárrétt niður við Krossá sem nú er eydd af völdum árinnar. Samkvæmt Þórði Tómassyni á Skógum finnast fyrir því heimildir að Valahnúkur hafi áður verið nefndur Valahraukur.
Að sögn Landnámu nam Ásbjörn Reyrketilsson land á Þórsmörk og helgaði landið Þór. Afréttur á Þórsmörk var frá miðöldum að hálfu eign Oddakirkju og að hálfu bændaeign í Fljótshlíð. Uppblástur hefur leikið Þórsmörk illa á síðari öldum, þótt enn séu þar einhverjir fjölskrúðugustu og fegurstu gróðurreitir á Íslandi. Má telja fullvíst að skógarhögg ásamt vetrarbeit hafi átt mestan þátt í þessari eyðingu. Sauðfé mun frá ómunatíð hafa verið látið ganga úti á Þórsmörk, en fjárbeitin þar mun löngum hafa þótt girnileg. Árið 1926 var síðasta vetrarbeit á Þórsmörk. Vetrarbeitin var bönnuð m.a. vegna þess að hún þótti ekki örugg í öllum vetrum hvað féð snerti og ennfremur var þessi ráðstöfun gerð til verndar skóglendinu. Um 1800 var búið að höggva nær allan skóg á Þórsmörk nema Hamraskóga. Í byrjun 19. aldar mun skógur hafa verið svo að segja uppurinn á Þórsmörk. Árið 1919 ákváðu 40 bændur í Fljótshlíð að snúa vörn í sókn og rituðu skógræktarstjóra bréf þar sem farið var fram á að Skógrækt ríkisins tæki að sér vörslu Þórsmerkur og nágrennis og girti landið af þar sem það væri í stórhættu vegna uppblásturs. Landið var afhent Skógræktinni árið 1924 og Mörkin ásamt nálægum afréttum sunnan Krossár girt stuttu síðar. Við friðun hefur landið tekið miklum stakkaskiptum. Uppblástur hefur verið haminn að mestu og gróðri hefur fleygt fram.
Við erum nú komin að beljandi Hvannánni sem rennur úr Hvannárgili. Þegar við erum komin yfir hana eru við loksins komin á Goðaland en Hvanná skilur að Stakkholt og Goðaland. Þegar hingað er komið er eins og að öllu því sem fegurst er og stórfenglegast í íslenskri náttúru hafi verið safnað saman handa okkur til að skoða. Beittir og harðir jöklarnir tróna yfir mjúku og linu móberginu sem er nær einráða á þessu svæði og bendir til þess að hnúkar og fell hafi að langmestu leyti hlaðist upp við gos undir jökli. Á stöku stað má sjá ljósleitt millilag, ignimbrít, sem er ættað frá gosi í Tindfjallajökli og hrafntinnumolar sem finnast á svæðinu eru komnir frá skerjum í Mýrdalsjökli. Á ísaldartímanum hafa skriðjöklarnir átt sinn þátt í mótun landslagsins. Eftir að þeir fóru að hörfa í lok ísaldar hafa ár og lækir haldið áfram að móta þetta sérstæða landslag sem hér gleður augað.
Engar aðgengilegar eða ábyggilegar heimildir eru til um landnám eða varanlega mannvist sunnan Krossár. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna geta höfundar þess að leið þeirra til Kötlu hafi legið um Goðaland ,,fagurt, grasgefið landsvæði sem byggt var til forna”. Sumar heimildir telja að Jörundur goði á Svertingsstöðum hafi helgað hofi sínu land alveg inn að Mýrdalsjökli og sé nafnið Goðaland þaðan komið. Brynjúlfur Jónsson getur þess í Árbók Fornleifafélagsins 1824 að almennt sé talið víst að þar sem Landnáma nefnir að bjór hafi legið ónuminn milli Krossár og Jöldusteins sé átt við Goðaland. Hann segir þó að svo geti ekki hafa verið nema að Hvanná hafi aldrei runnið saman við Krossá eins og hún gerir nú heldur fylgt Stakkholtsbrúnum og komið í Markarfljót hjá Jöldusteini, en þá hefði hin langa og mjóa landræma milli ánna óneitanlega átt skilið að nefnast bjór. En heldur telur hann þetta ólíklegt.
Árið 1578 var kveðinn upp dómur á Kirkjulækjarþingi í Fljótshlíð að Goðaland hafi verið og ætti ævinlega að vera eign kirkjunnar á Breiðabólsstað í Fljótshlíð en Eyfellingar voru þá farnir að reka fé sitt á Goðaland. Eyfellingar vildu ekki samþykkja þennan dóm þar sem þeir töldu sig ekki hafa haft nægan tíma til þess að afla nægilegra gagna og óskuðu eftir að fá að taka málið aftur fyrir seinna. Málið var tekið upp aftur ári síðar, eða 1579, á Lambeyjarþingi í Fljótshlíð sem komst að sömu niðurstöðu og árið áður. Dómur þessi var endanlegar staðfestur í Lögréttu árið 1588 og þurftu Eyfellingar þá að fara að borga Fljóthlíðingum fyrir not á afréttinum. Fyrir utan Breiðabólstað áttu Teigur ogEyvindarmúli í Fljótshlíð sérstök ítök á afréttinum sunnan Krossár. Teigur átti Teigstungur og Eyvindarmúli Múlatungur.
Ég læt hér staðar numið í þessari leiðarlýsingu og vísa til annarra greina hér í ritinu um gönguleiðir og örnefni á Goðalandinu sjálfu en vona jafnframt að lesendur séu einhverju fróðari um þessa leið sem hér er að baki.