Fréttatilkynning SAMÚT um náttúruverndarlög

12. nóvember 2015

Fréttatilkynning frá stjórn SAMÚT, samtaka útivistarfélaga um frumvarp til breytinga á náttúruverndarlögum.

Útivistarfélög mótmæla skertum almannarétti í breytingum á náttúruverndarlögum

SAMÚT, samtök útivistarfélaga, Ferðaklúbburinn 4x4, Ferðafélag Íslands, Íslenski Alpaklúbburinn og Ferðafélagið Útivist mótmæla hugmyndum um skerðingu á almannarétti og umferðarétti sem fram kemur í frumvarpi um breytingu á náttúruverndarlögum sem nú liggur fyrir Alþingi.

Í fjölmiðlum síðasta sólarhring hefur mátt heyra fréttir af mikilli samstöðu á Alþingi um þær breytingar á náttúruverndarlögum sem umhverfis- og samgöngunefnd þingsins hefur haft til umfjöllunar.  Einnig hafa heyrst þær fullyrðingar að sátt sé um þessar breytingar meðal hagsmunaaðila og þeirra aðila sem láta sig náttúruvernd varða. 

Þessar fullyrðingar vekja með okkur nokkra furðu.  Alþingi ákvað á sínum tíma að fresta gildistöku núverandi laga frá 2013, en þau lög höfðu tekið verulegum breytingum í meðförum Alþingis og hafði tekist að slípa af þeim ýmsa vankanta sem meðal annars útivistarfélög höfðu bent á. Fyrir lá að gerðar yrðu frekari breytingar á lögunum áður en þau tækju gildi og lagði umhverfisráðherra fyrir Alþingi frumvarp um þær breytingar.  Á þeim tímapunkti gafst hagsmunaaðilum, þar með talið útivistarfélögum, tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum.  Nokkur útivistarfélög nýttu sér þann rétt.  Hins vegar er það frumvarp sem nú er komið fram frá umhverfis- og samgönunefnd gjörólíkt því frumvarpi sem lá fyrir þegar athugasemdirnar voru sendar inn.  Sérstaklega á þetta við um ákvæði um almannarétt.

Í 18. grein frumvarpsins er fjallað um umferð gangandi manna.  Þetta ákvæði hefur alltaf tekið nokkrum breytingum í hvert sinn sem lög um náttúruvernd eru endurskoðuð.  Í fyrstu útgáfu laganna frá 1956 var réttur almennings til að ganga um náttúruna nokkuð víðtækur, en þar var réttur almennings til farar um óræktað land nánast ótakmarkaður.  Við endurskoðun laganna 1971 og 1999 komu hins vegar inn umtalsverðar takmarkanir á þeim rétti.  Í lögunum sem samþykkt voru 2013 fékk útivistarfólk talsverða réttarbót hvað þetta varðar, en þó þannig að tekið var tillit til þarfa landeiganda við nýtingu jarða, t.d. vegna beitar eða skógræktar.  Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir er útivistarfólk hins vegar svipt þessari réttarbót með öllu og landeiganda gefinn full heimild til að banna gangandi fólki för um óræktað land á landareign sinni.  Enginn tími er gefinn til umræðu og svo virðist sem frumvarpið verði keyrt með hraði í gegnum þingið. 

Í umræðum á þingi fóru þingmenn mörgum orðum um að breytingar í samfélaginu kalli á breytta nálgun á almannarétt og vísa þar til aukins ferðamannafjölda.  Hins vegar er litið algjörlega framhjá öðrum breytingum í samfélaginu sem kalla á að almannaréttur sé styrktur.  Hér er vísað til breytinga á eignarhaldi á landi þar sem jarðir eru í vaxandi mæli komnar í eigu aðila sem ekki búa á jörðunum.  Reynsla útivistarfólks af þessum breytingum er á þann veg að full þörf er á að styrkja almannaréttinn í stað þess að svipta útivistarfólk þeim réttarbótum sem fengust í náttúruverndarlögum árið 2013.  Svo virðist sem alþingismenn hafi náð samstöðu um að heiglast á að bregðast við þeim málum sem upp koma vegna aukins ferðamannafjölda, en reyna að leysa málið með því að skerða þess í stað almannarétt.

Ennfremur verður ekki hjá því komist að gera athugasemdir við þá skilgreiningu sem fram kemur í lögunum á óbyggðum víðernum.  Þó útivistarfólk vilji njóta kyrrðar í náttúrunni er það krafa okkar að óbyggð víðerni séu skilgreind með þeim hætti að ekki sé lokað fyrir möguleika stórra hópa til að njóta náttúrunnar.  Hér er vísað til þess að í skilgreiningu laganna á óbyggðum víðernum er gerð krafa um að vélknúin umferð sé útilokuð frá þeim svæðum sem undir þetta falla.  Óhjákvæmilega þýðir það að á þeim svæðum verði slóðum lokað, öll vetrarumferð á jeppum og vélsleðum bönnuð og flugbann sett á viðkomandi svæðum.  Óbyggð víðerni eru fyrst og fremst svæði sem eru laus við öll meiriháttar mannvirki og rask af völdum mannsins sé í lágmarki.  Með því að tiltaka sérstaklega að þau séu einnig laus við vélknúna umferð, er ljóst að annað hvort verði settar verulegar takmarkanir á ferðalög á jeppum og vélsleðum en að öðrum kosti setur þetta verulegar takmarkanir á hvaða svæði sé hægt að skilgreina sem óbyggð víðerni.  Undir öllum kringumstæðum mun það hafa neikvæðar afleiðingar fyrir náttúru landsins.

 

Sveinbjörn Halldórsson formaður SAMÚT