Á stjórnarfundi félagsins þann 27. september, samþykkti stjórn félagsins einróma tillögu hæfnisnefndar um að ráða Hörð Magnússon sem næsta framkvæmdastjóra félagsins. Alls sóttu 19 manns um stöðuna og voru mjög margar sterkar umsóknir meðal þeirra.
Hörður stundaði nám í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands en söðlaði síðan um og lauk námi í rekstrarstjórnun og er með MBA frá HÍ. Hörður var innkaupastjóri hjá Skátabúðinni og síðar Nanoq og Útilíf. Tók hann síðan við sem rekstrarstjóri Útilífs (hluti af Högum hf.) frá 2006-2021 og varð framkvæmdastjóri Útilífs ehf. 2021 eftir að Hagar seldu reksturinn til nýrra eigenda.
Hörður hefur mikla reynslu af rekstri, sölu og markaðsmálum og reynslu af erlendu samstarfi ásamt því að halda utan um stóran starfsmannahóp.
Hann ólst upp í útivistarumhverfinu, var skáti og í ÍSALP frá unga aldri og félagi í Hjálparsveit skáta og sat í stjórn sveitarinnar um langt árabil, þar sem hann sá m.a. um undanfaramál, flugeldasölu og átti þátt í að koma Skátabúðinni á réttan kjöl, sem var síðan seld með góðum árangri fyrir Hjálparsveitina.
Hörður hefur gefið út bækur, skrifað greinar og var um tíma með pistla í útvarpi um fjallamennsku og björgunarmálefni.
Hörður mun hefja störf hjá Ferðafélaginu Útivist í nóvember n.k.