Nýjar sóttvarnareglur tóku gildi 13. janúar og munu þær hafa áhrif á starfsemi Útivistar meðan reglugerðin gildir eða til 2. febrúar.
Fjöldatakmarkanir miðast núna við 10 manns. Sú takmörkun gildir meðal annars í fjallaskálum og gerir það að verkum að ekki er hægt að vera með skálaferðir á gildistíma reglugerðarinnar. Þetta mun þó ekki hafa áhrif á margar ferðir svo fremur sem þessi takmörkun verði ekki framlengd.
Í dagsferðum er hins vegar leyfilegt að vera með allt að 50 manns. Það liggur í því að skipulagðar gönguferðir falla undir íþróttastarf og þar er heimild fyrir allt að 50 manns. Sama gildir þó farið sé með rútu í gönguna þar sem fjöldatakmörkunin gildi ekki um hópbifreiðar, sambærilegt við almenningssamgöngur, innanlandsflug o.fl. Hins vegar skal nota andlitsgrímu þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðartakmörkun. Við munum þó miða við að rúmt sé um alla í rútunum og hafa sætafjölda vel yfir fjölda þátttakenda.
Hópastarfsemi og dagsferðir geta því gengið með eðlilegum hætti. Í rútuferðum minnum þátttakendur á að vera með grímuna klára og nota hana í bílnum. Einnig hvetjum við þátttakendur til að vera með handspritt í vasanum, forðast eins og hægt er alla snertifleti, ganga rólega um bílinn og sýna almenna tillitsemi og loks forðast að taka á sameiginlegum búnaði annarra þátttakenda. Okkur hefur kannski þótt sjálfsögð kurteisi að rétta næsta manni göngustafina sína eða ná í vatnsbrúsann í bakpokann fyrir næsta mann, en í dag er þetta ekki eins sjálfsagt. Gerum þetta rétt og þá gengur allt vel.