Tímamót voru í Básum um síðustu helgi þegar olítankur sem þar hefur verið í áratugi var fjarlægður. Það var gert í kjölfar orkuskipta þar sem rafmagnskynding hefur leyst af hólmi olíukyndingu.
Margir minnast gömlu Sólóvélanna sem sáu um að halda skálunum í Básum heitum, jafnvel dæmi þess að þeir sem hafa verið tíðir gestir í Básum um árabil sakni þeirra. Nú eru hins vegar breyttir tímar og umhverfisvæn orka sér um að halda skálunum heitum jafnt sumar sem vetur. Í því felst mikill ávinningur hvað varðar þægindi gesta, svo ekki sé talað um ávinning fyrir umhverfið. Það var því gleðilegt verkefni að fjarlægja gamla olíutankinn.
