Dags:
fim. 4. júl. 2024 - sun. 7. júl. 2024
Brottför:
frá Mjódd kl. 08:00
Þessi viðburður er liðinn.
Þessi leið er ein helsta skrautfjöður Útivistar. Ferðin hefst með göngu á Sveinstind. Útsýnið yfir hinn margrómaða Langasjó, sem kúrir upp við Vatnajökul, er hreint ólýsanlegt. Í góðu skyggni má líta yfir bróðurpart hálendis Íslands. Leiðin liggur svo um fáfarnar slóðir, söndugar og mosavaxnar, meðfram Skaftá og um leynistigu með Uxatindum og fram grösuga Skælinga. Ganga á Gjátind og um sjálfa Eldgjá er góður lokakafli á þessari margbreytilegu göngu sem lýkur í Hólaskjóli. Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum.
Dagur 1
Brottför frá Mjódd. Ekið austur fyrir fjall, upp Skaftártungu og að Langasjó. Farangur er færður í trússbíl í Hólaskjóli og keyra göngugarpar þaðan upp í Langasjó þar sem gangan hefst seinni part dags. Gengið er á Sveinstind (1098 mys) og svo niður sunnan megin og að skála Útivistar við bakka Skaftár. Frá Sveinstindi er útsýni og fjallasýn einstök. Í góðu skyggni sést til Öræfajökuls í austri og Heklu í vestri. Haukfránir telja sig jafnframt geta greint Eiríksjökul yfir slakkann í Langjökli. Útsýni yfir 25 km langan Langasjó og grænir og svartir tindar Fögrufjalla láta engan ósnortinn.
Ganga dagsins: 5-6 km, 500 metra hækkun
Dagur 2
Gengið með Skaftá, framhjá stórfenglegum flúðum og nafnlausum blæjufossi og fram um Hvanngil þar sem þarf að vaða Hvanná og stundum litla grein af Skaftá sem rennur saman við hana. Upp úr Hvanngili er farið um Uxatindagljúfur milli Uxatinda og Grettis. Í botni gljúfursins rennur lítil á sem þarf oft að vaða og stikla. Þegar upp úr gljúfrinu er komið er gengið upp á Biðil og fram Skælingana sjálfa að skála Útivistar í Stóragili. Tilfinningin að koma í Skælinga að kvöldi er ólýsanleg. Staðurinn stendur á bökkum Skaftár og er sérstakur vegna hraunmyndana úr Skaftáreldum.
Ganga dagsins: 18 km, 600-700m hækkun
Dagur 3
Gengið fram Skælinga um Miðbotna og þaðan upp að börmum Eldgjár. Gjátindur (943 mys) toppaður og gengið meðfram suð-austari bakka Eldgjár og Ófærufoss barinn augum af besta stað. Farið ofan í Eldgjá og Ófærufoss skoðaður í návígi, áður en gengið er fram með gjánni, um Kvíslarhólma og meðfram Lambaskarðshólum niður í Hólaskjól þar sem gist er síðustu nóttina.
Ganga dagsins: 20-22. km, 500-600 m hækkun
Dagur 4
Farið í stutta göngu í nágrenni Hólaskjóls. Hægt er að ganga upp hraunið með Syðri-Ófæru og skoða fossinn sem sumir kalla Litla-Gullfoss, en er af heimamönnum kallaður nafnlausi fossinn. Frá Hólaskjóli er haldið heimleiðis og er brottför frá Hólaskjóli öðru hvoru megin við hádegið.
Fararstjóri er Páll Arnarson
Ferðalýsing