Perlur að Fjallabaki

Dags:

lau. 12. júl. 2025 - mán. 15. des. 2025

Brottför:

frá Mjódd kl. 08:00

  • Skáli

Þetta er skemmtileg ganga á fáförnum en virkilega áhugaverðum slóðum að Fjallabaki.

Brottför frá Mjódd, kirkjumegin á bílaplaninu fyrir framan Sambíóin og ekið sem leið liggur í Landmannahelli þar sem gist er fyrstu nóttina. Áður en gengið er til náða verða tindar Löðmundar sigraðir.

Eftir góðan nætursvefn hefst gangan með stefnuna á Dalakofa. Margt áhugavert verður á leið göngumanna þennan dag og ber þar hæst hið svokallaða „Auga“ þar sem Rauðufossakvísl sprettur upp úr jörðinni.

Frá Dalakofa liggur leiðin í Hungurfit. Vert er að byrja á að skoða nafnlausa fossinn í Markarfljóti norðan Laufafells. Þó svo foss þessi sé jafnan þekktur sem nafnlausi fossinn hefur hann gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem Rúdolf og Hróðólfur, en fjallmenn á Rangárvallaafrétti kalla hann jafnan Laufa. Gengið er meðfram Skyggnishliðarvatni og niður í Hungurfit þar sem gist verður í vistlegum skála.

Úr Hungurfitjum liggur leiðin í Sultarfit áður en áin Hvítmaga er vaðin og því gott að hafa vaðskóna klára þennan dag. Gengið í Þvergil og komið við í sérstæðum hellisskúta sem var gististaður gangnamanna á fyrri tíð. Leiðinni lýkur svo við Markarfljót hjá Mosum þar sem rúta sækir hópinn.

Verð 127.000 kr.
Félagsverð 115.000 kr.

Nr.

2507L06