Fimmvörðuháls - 2 dagar
Ganga yfir Fimmvörðuháls
Hálsinn á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls nefnist Fimmvörðuháls. Á síðari árum hefur leiðin um hálsinn, á milli Skóga og Þórsmerkur verið ein af vinsælustu gönguleiðum hér á landi. Leiðin sem farin er liggur frá Skógum og upp meðfram Skógaheiði og efst á hálsinum er skáli Útivistar, Fimmvörðuskáli. Frá Skógum upp að Fimmvörðuskála er um 6-7 klst ganga og vegalengd rétt um 14 km. Gengið er frá sjávarmáli og upp í 1100 m hæð.
Frá Fimmvörðuskála er víðsýnt í austur til Mýrdals og niður eftir hálsnium.
Frá skálanum er gengið um jökulfannir og ása, gegnum gosstöðvarnar og niður Bröttufönn.
Af norðanverðum hálsinum, í góðu skyggni er ógleymanlegt útsýni yfir Emstrur, Torfajökulssvæðið og yfir Landmannaafrétt. Frá Bröttufönn er haldið um Heljarkamb og farið eftir Kattahryggjum og niður í Strákagil og í Bása þar sem göngunni lýkur. Frá Fimmvörðuskála í Bása 12 km. sem tekur jafnan 5-6 klst. Heildarvegalengd er um 26 km.
Skipulag ferðar
Útivist býður upp á Fimmvörðuhálsferðir með tvenns konar sniði, annars vegar er gengið á tveimur dögum með gistingu í Fimmvörðuskála og hins vegar er hálsinn genginn í einum rykk með gistingu í Básum. Þó eru einstaka ferðir sem ekki fylgja þessu skipulagi.
Hálsinn genginn á tveimur dögum
Í fyrri Fimmvörðuhálsferðum sumarsins í júní og júlí er göngunni skipt á tvo daga með skálagistingu í Fimmvörðuskála. Þá er lagt af stað með rútu frá Mjódd (sunnan við bíóið og vestan við Breiðholtskirkju) og keyrt að Skógum þar sem gangan hefst. Gengið upp í Fimmvörðuskála þar sem er gist aðfararnótt laugardags. Lagt er af stað snemma á laugardegi og gengið niður í Bása þar sem hópurinn gistir í skálanum aðfararnótt sunnudags. Á sunnudegi gefst tækifæri til stuttra gönguferða um fallegt svæði í nágrenni skálans en rútan sem keyrir hópinn til Reykjavíkur leggur af stað kl. 13:00.
Farangur fluttur í Bása
Ferðalangar þurfa að huga vel að því hvaða farangur þeir hyggjast nota á Fimmvörðuháls leiðinni og hvað á að nota þegar inn í Bása er komið. Innifalið í ferðinni er sending á einum pakka í Bása á hvern þátttakanda og sjá fararstjórar um að þeir pakkar fari á réttan stað. Merkja þarf farangur vel. Nauðsynlegt er að nafn eiganda pakka komi fram sem og Útivist í Básum.
Heimferð á sunnudag
Frá Básum er farið með rútu kl. 13:00 á sunnudag. Staðkunnir fararstjórar Útivistar sjá um leiðsögn á leiðinni. Tekið er stutt kaffistopp á Hvolsvelli. Áætluð heimkoma er á milli kl. 18:00 og 19:00.
Frekari upplýsingar
Skrifstofa Útivistar veitir frekari upplýsingar um fyrirkomulag ferðarinnar og útbúnað. Afgreiðslutími skrifstofunnar er á milli 12:00 og 17:00
Drög að útbúnaðarlista
Full ástæða er til að benda fólki á að búa sig vel. Á Fimmvörðuhálsi er allra veðra von og því áríðandi að hafa góð hlífðarföt meðferðis. Góðir gönguskór eru mikilvægir sem og göngubuxur úr efni sem þornar fljótt og heldur hita þó að blotni. Gallabuxur eða slíkur fatnaður er ekki æskilegur í gönguferðum.
Eftirfarandi eru drög að útbúnaðarlista sem miðast við göngu yfir Fimmvörðuháls:
- Gönguskór
- Svefnpoki
- Göngusokkar
- Auka sokkar
- Legghlífar
- Húfa
- Vettlingar
- Göngubuxur
- Peysa (ull eða flís)
- Nærföt úr ull eða ullarblöndu
- Auka peysa
- Vatns- og vindheldur hlífðarklæðnaður
- Allir ættu að vera með nesti svo sem samlokur eða flatkökur, heitt og kalt vatn og ágætt er að hafa meðferðis orkuríkt nasl.
Matur og næring
Mataræði er eitt af undirstöðuatriðum ánægjulegrar ferðar. Nauðsynlegt er að huga vel að því hvaða matar skal neytt í ferðinn. Mikill munur er á því sem borðað er á morgnana og því sem neytt er á kvöldin að göngu lokinni.
Morgunverður:
Á morgnana er gott að neyta matar sem er ríkur af kolvetnum, s.s. gróft korn og ávextir. Einnig er gott að neyta próteinríkrar fæðu, en prótein fást úr kjöti, fiski, eggjum og mjólkurvörum. Dæmi um morgunmat er súrmjólk með 100-150 gr af músli eða hafragrautur, hrökkbrauð með smjöri og osti og svo er ágætt að drekka te eða kaffi.
Hádegismatur:
Í hádegismat er gott að borða flatbrauð eða gróft brauð með kæfu eða osti, heita pakkasúpu og orkuríkt nasl á eftir.
Kvöldverður:
Á kvöldin er gott að borða fituríka fæðu, því þá hefur líkaminn nægan tíma til að melta fæðuna. Vinsælt er að nota frostþurrkaðan mat sem fæst í útilífsverslunum. Þessi matur er frekar dýr og því má einnig mæla með pasta og sósu, sem gjarnan má betrumbæta með rjóma/rjómaosti. Eftir kvöldmatinn er gott að hita vatn í kakó og borða kex eða súkkulaði með.
Snarl yfir daginn:
Gott er að hafa eitthvert nasl til að grípa í yfir daginn, svo sem harðfisk, rúsínur, þurrkaða ávexti, hnetur, súkkulaði eða kex.
Drykkir:
Nauðsynlegt er að hafa nóg af vatni til að drekka yfir daginn. Ef vitað er um læki á gönguleiðinni er óþarfi að bera allt vatn með sér að heiman, heldur má fylla á vatnsílát í lækjunum. Gætið þess að drekka jafnt og þétt yfir daginn.
Nauðsynlegt er að hafa með sér heitt vatn á brúsa, sérstaklega ef kalt er eða hráslagalegt. Kakó er mjög góður hitagjafi en einnig er hægt að hafa með sér kaffi, te eða pakkasúpur.
Gætið þess að borða vel kvöldið fyrir göngu!
Skálinn á Fimmvörðuhálsi
Skálarnir í Básum
Veðrið í Básum