25. mars var gengin hin árlega afmælisganga Útivistar á Keili. Fyrsta dagsferð ferðafélagsins Útivistar var farin á Keili sennilega 7.apríl 1975. Síðan er þessi hefð að ganga á Keili sem næst stofndegi félagsins sem var 23. mars 1975.
Það viðraði miðlungi vel á göngumenn í þetta sinn. Segja má að rigningin hafi verið að flýta sér fullmikið. Ekki sást í Keili fyrr en komið var í um hálfs km fjarlægð. En upp var farið og toppurinn skoðaður líka. Nú er kominn mikill pallur á toppi fjallsins þar sem hægt er að setjast niður eftir erfiða göngu. Þar eru einnig tvær gestabækur og skrifaði hópurinn í aðra þeirra.
Síðan var haldið niður, en tekinn útúrdúr að Keilisbörnum, hnjúkum sem eru vestur af meginfjallinu. Þegar að rútunni var komið var slegið upp afmælisveislu með kakói og snúðum.
Gengin vegalengd var um 11 km og hækkun á fjallið er um 200 m. (Everest hvað?)
Fararstjóri var Oddur Friðriksson.
Höfundur: Steinar Frímannsson
Myndir: Steinar Frímannsson og Grétar W. Guðbergsson